Á ári hverju setja grunnskólar Múlaþings upp árshátíðir sem eru hver annarri mikilfenglegri. Árið í ár var engin undantekning. Það er frábært að sjá hvernig börn, starfsfólk skóla og gjarnan tónlistaskólar koma saman og setja upp stórar og metnaðarfullar sýningar. Það er ýmislegt sem hægt væri að læra af gleðinni og samvinnunni sem er við völd á meðan undirbúningi stendur.
Seyðisfjarðarskóli
Á Seyðisfirði var Kardemommubærinn eftir Thorbjörn Egner settur upp þann 21. mars. Leikritinu var skipt í þrennt og skiptu skólastigin hlutunum svo á milli sín. Þá sungu nemendur elsta árgangar leikskóladeildar einnig lag úr verkinu.
Mikil samvinna var við tónlistardeild Seyðisfjarðarskóla þar sem söngur og tónlist spilar stórt hlutverk í sýningunni. Allir nemendur voru þátttakendur í uppsetningunni með einum eða öðrum hætti, hvort heldur sem er við leik, söng, gerð sviðsmyndar eða tónlistarflutning.
Myndir og myndband frá undirbúningnum eru inni á vef Seyðisfjarðarskóla.
Djúpavogsskóli
Árshátíð Djúpavogsskóla í ár hét ,,Sagan okkar“ og rak sögu fyrri árshátíða skólans. Hún var sýnd á Hótel Framtíð þann 21. mars. Allir nemendur tóku þátt í undirbúningi og var skipt í hópa þar sem nemendur gerðu búninga, sinntu förðun og sáu um rafræna sviðsmynd, svo fátt eitt sé nefnt. Nemendur gátu einnig valið um að leikstýra og völdu 10 nemendur sér þann valkost og öðluðust þannig dýrmæta reynslu í leikstjórn. Þrír nemendur komu að leikstjórn yngsta stigs, þrír að miðstigi og fjórir að unglingastigi. Þá voru tveir nemendur sem tóku að sér að gera leikskrá. Það er því augljóst að hæfileikar nemenda fengu að njóta sín í ólíkum verkefnum.
Öll stigin sýndu saman en skiptu þó verkum á milli sín. Yngsta stig sýndi brot úr Ávaxtakörfunni, miðstig sýndi hluta úr Latabæ og unglingastig sýndi vel valin atriði úr fyrri árshátíðum. Skólastjóri skólans og nemendur 10. bekkjar sömdu handritið að hluta unglingastigs og settu saman þannig að sýningin yrði ein heild. Í ár var lögð áhersla á dans og söng og var samstarf vegna þessa á milli skólans og tónlistarskólans þar sem nemendur æfðu söng undir handleiðslu tónlistarkennara.
Egilsstaðaskóli
Í Egilsstaðaskóla voru haldnar fjórar árshátíðir sem dreifast yfir skólaárið. Að hausti er árshátíð elsta stigs og eftir áramót árshátíð miðstigs og loks tvískipt árshátíð yngsta stigs (1. og 2. bekkur og svo 3. og 4. bekkur). Í vetur voru sett upp leikritin Grease, Ávaxtakarfan og Dýrin í Hálsaskógi.
Samstarf var við Tónlistarskólann á Egilsstöðum varðandi undirbúning árshátíðanna, annars vegar með því að tónlistarkennarar komu að þjálfun söngvara og sönghópa og hins vegar skipuðu tónlistarkennarar og nemendur í tónlistarskólanum hljómsveitir sem spiluðu undir söng að einhverjum hluta.
Hvert stig hefur komið sér saman um nokkur leikverk sem eru sett upp en með því móti er hægt að nýta handrit, nótur, leikmuni og búninga oftar en einu sinni.
Á öllum stigum er fyrirkomulagið þannig að allir nemendur tóku þátt með einhverjum hætti. Krakkarnir völdu hvaða verkefni þau hafa í uppsetningunum; leik (aðal- eða aukahlutverk), söng, búningahönnun, leikmyndagerð eða sem tækni- og sviðsfólk. Reynt var að virkja sem flesta í undirbúningi árshátíðanna. Umsjónarkennarar sáu um leikstjórn en árgangateymi og samráðshópar stiga skiptu svo með sér verkefnum. Leitað var til list- og verkgreinakennarar varðandi leikmyndagerð og oft vinna krakkarnir leikmuni eða leikmynd hjá list- og verkgreinakennurunum.
Á hverju ári er það þannig að á elsta stigi eru 3 – 4 vikur ætlaðar í undirbúning og æfingar en styttri tími á mið- og yngsta stigi.
Foreldrum og aðstandendum var boðið á árshátíðirnar. Ekki var greiddur aðgangseyrir en fólki var boðið að leggja fram frjáls framlög sem runnu í sviðslistasjóð skólans. Fyrir frjálsu framlögin hafa til dæmis nýlega verið keyptir hljóðnemar (bæði þráðlausir og á gólf) og monitorar.
Fellaskóli og Grunnskóli Borgarfjarðar
Fellaskóli og Grunnskólinn á Borgarfirði sameinuðu krafta sína á árshátíð skólanna. Árshátíðin var þann 21. mars við mikla kátínu viðstaddra. Yfirskrift hátíðarinnar var ,,Sagan á svið – Tímaflakk“. Öll stig skólans, kennarar sem og nemendur, sömdu leikþættina.
Innblástur að efnistökum árshátíðarinnar er að við eigum okkur öll drauma um að vera eitthvað sérstakt á ævi okkar. Við lítum til ýmissa fyrirmynda úr fortíðinni sem við viljum líkjast eða leika: þjóðhöfðingja, íþróttafólks, kjarkmikilla samfélagshetja og styðjandi ljúflinga. Við ræðum oft um drauma okkar og langanir við vini og samborgara. Og þegar okkur dettur ekkert annað í hug er ALLTAF hægt að tala um veðrið!
Mannfólk hefur í árþúsund reynt að læra á vísbendingar um veður, haga lífi sínu eftir veðrinu og finna sífellt fleiri leiðir til að verja sig fyrir því.
Nemendur á yngsta stigi kynntu ýmsar persónur úr mannkynssögu, frá steinöld til nútímans, og sýnt var á óvenjulegan hátt hvernig veðrið getur leikið suma grátt. Nemendur á miðstigi horfðust í augu við Sturlungaöldina en þá fór allt upp í loft á Íslandi. Með aðstoð góðra manna komust þau að því hvað það var sem klikkaði og hefði mátt laga. Í leikgerðinni þeirra hljómaði brot úr elsta sálmi sem varðveist hefur á Norðurlöndum en hann samdi Kolbeinn Tumason á Sturlungaöld. Lagið er nýrra en var sett í þjóðlegan fimmundarstíl. Unglingastigið var með leikrit, söng og dans. Þau kíktu á Ólympusfjall þar sem grísku guðirnir fögnuðu fæðingu Herkúlesar. Svo fylgdust þau með Herkúles vaxa úr grasi og sáu hann rekast á áhugaverðar persónur úr mannkynssögunni.
Í Fellaskóla er hefð fyrir því að bjóða upp á léttar veitingar að árshátíð lokinni og þá er hægt að kaupa eintak af skólablaði skólans og rennur ágóði þess í ferðasjóð nemenda.
Brúarás
Í Brúarási var sett upp leikritið Barist á bökkunum eftir Ingunn Snædal. Hún sá um leikstjórn en Jón Arngrímsson og tónlistarkennarar skólans sáu um að æfa tónlistina með nemendum. Þemað var Stuðmenn og Grýlurnar. Allir nemendur tóku þátt í leiksýningunni. Langflestir léku bæði og spiluðu á eitthvert hljóðfæri eða sungu, enda eru langflestir nemendur grunnskólans líka nemendur í Tónskólanum.
Í fjöldamörg ár hefur undirbúningur árshátíðar verið svo stór þáttur í skólastarfinu í Brúarási að hefðbundið starf hefur verið sett til hliðar í vikuna fyrir árshátíðina sjálfa. Þá hafa nemendur æft lög sýningarinnar síðan fyrir jól.
Nemendum og kennurum er skipt í fjóra hópa: Sviðmynd, búningar, perur og tombóla. Hópurinn perur bjó til spurningarleiki og þeir sem voru í tombóluhóp söfnuðu saman vinningum og undirbjuggu tombólu. Ágóði tombólumiðasölu og frjáls framlög runnu svo í ferðasjóð elstu nemenda.
Þegar húsið opnaði gat fólk spreytt sig á spurningum og keypt sér tombólumiða fram að sýningu. Þá tók við leiksýning og eftir hana var boðið upp á súpum. Að lokum var svo ball fyrir þá sem vildu halda áfram að skemmta sér að sýningu lokinni.
Elín Sigríður kennari í Brúarási segir árshátíð skólans einkennast af ,, samheldni, gleðin og samvinnu nemenda og kennara. Saman sköpum við ævintýri sem við getum verið stolt af ár hvert.“
Það er greinilegt að Múlaþing er ríkt af duglegu og skapandi fólki og það verður gaman að sjá hvað skólarnir setja upp að ári.