Síðasliðinn laugardag var nýtt íslenskt fjölskylduleikrit eftir Þór Túliníus frumsýnt í Sláturhúsinu menningarmiðstöð, verkið ber nafnið Hollvættir á heiði og er leikstýrt af Ágústu Skúladóttur. Uppselt var bæði á frumsýninguna og á sunnudagssýninguna
Hollvættir á Heiði er saga af systkinunum Petru og Fúsa sem leggja í för upp á heiði um miðja nótt að leita að uppáhalds kindinni Þokkabót sem ekki hefur skilað sér af fjalli. Á ferð sinni rekast þau á skrautlega hollvætti, söngelska álfa, ráðagóða dverga og lagarvatnsorm og úr verður heljarinnar ævintýri.
Sýning helgarinnar gekk vonum framar að sögn Erlu Guðnýjar Pálsdóttur, sýningastjóra: "Gaman var að sjá hversu breytt aldursbil var á sýningunni, allt niður í þriggja ára og mátti sjá bros á hverju andliti og mikil tenging myndaðist við áhorfendur sem virtust lifa sig inn í hverja senu."
Aðspurð hvernig ferlið hefur gengið svarar Erla Guðný: "Fyrir okkur héðan að austan var gríðarlega gott að fá tækifæri til að taka þátt í svona verki. Að fá fagfólk í lykilstöður, atvinnuleikara og, já svona "professional" uppsetningu er mjög gott að setja í reynslubankann." Erla Guðný heldur áfram:"Ferlið gekk rosalega vel þar sem mikil samvinna var á milli allra sem komu að verkinu".
Í aðalhlutverkum eru þau Jökull Smári Jakobsson, Vigdís Halla Birgisdóttir og Kristrún Kolbrúnardóttir.
Aðrir leikarar: Tess Rivarola , Øystein Magnús Gjerde, Vigdís Diljá Óskarsdóttir, Stefán Bogi Sveinsson, Hlín Pétursdóttir Behrens, Hanna Sólveig Björnsdóttir, Árni Friðriksson, Gyða Árnadóttir, Sólgerður Vala Kristófersdóttir og Auðbjörg Elfa Stefánsdóttir.
Hægt er að nálgast miða á Tix.is en Hollvættir á Heiði verða á sviði Sláturhússins til 3.desember
Myndir: Tara Tjörva