Undanfarna mánuði hefur mikið gengið á í Sláturhúsinu. Þar eru framkvæmdir í fullum gangi og miðar vel áfram. Framkvæmdir utanhúss eru á síðustu metrunum, en skipt var um þak á öllu húsinu og klárað að klæða það að utan. Einnig var bætt við gluggum og hurðum eftir þörfum.
Innan dyra er ennþá verið að vinna í að brjóta niður það sem þarf til að hægt sé að byggja upp aftur. Miklar breytingar verða gerðar innandyra. Á efri hæð er verið að taka frystiklefann í gegn og verður hann að 240 fermetra fullbúnu blackbox sviðslistarými. Fyrir framan hann verður sýningarsalur, eins og var áður, en búið að brjóta niður alla milliveggi og kompur og salurinn orðinn eitt rými. Danssalur með sérstöku dansgólfi verður á sama stað og áður, en inn af honum bætist við salernis- og sturtuaðstaða fyrir þá sem eru að vinna í húsinu. Þar sem áður var vinnustofa listamanna verður kaffistofa/eldhúsaðstaða og tæknirými.
Á neðri hæð hússins kemur nýr stigi upp á efri hæð, þar verður bætt við salernum og opnað verður úr salnum út í suðurátt. Þar verður rými sem nýtist ýmist fyrir vinnustofur, námskeið eða sýningar. Vegahúsið, ungmennahús, verður áfram á sínum stað en þar verður bætt við gluggum og inngangurinn gerður aðgengilegri. Frystiklefinn á neðri hæðinni hefur líka verið tekinn í gegn og mun hýsa Ormsstofu.
Arkitekt verkefnisins er Anna María Þórhallsdóttir hjá Sniddu arkitektum, tæknilegar útfærslur eru í höndum verkfræðistofunnar Eflu og byggingastjóri er Jónas Hafþór Jónsson frá Verkráð.
Áætlað er að framkvæmdum ljúki 1. júní og því verður sumarsýning Sláturhússins á sínum stað og eðlileg starfsemi í húsinu í framhaldi af því.