Aðgerðastjórn almannavarna á Austurlandi hvetur alla þá sem hafa farið út fyrir fjórðunginn vegna vetrarfría í skólum eða af öðrum ástæðum að fylgjast vel með heilsufari og huga vel að einkennum veikinda eftir heimkomu. Gæta vel persónulegra sóttvarna og að halda sig heima ef einhver einkenni gera vart við sig eða minnsti grunur leikur á smiti. Hafa þá samband við heilsugæsluna eða síma 1700.
Með árvekni að leiðarljósi drögum við úr líkum á því að smit berist inn í skóla, vinnustaði og meðal okkar nánustu.
Einnig er minnt á að í verslunum þar sem ekki er hægt að tryggja 2 metra fjarlægð er grímuskylda. Markviss grímunotkun okkar í verslunum og annars staðar þar sem erfitt er að tryggja 2 m fjarlægðarmörk getur því orðið eitt af því sem tryggir þig og þá sem þú umgengst og síðast en ekki síst áframhaldandi gott ástand á svæðinu. Má segja að það gildi á öllum tímum í matvöruverslunum en sérstaklega á annatímum.