Á 51. fundi fjölskylduráðs Múlaþings sem haldinn var þann 20. september 2022 var bókað að ráðið vildi hefja vinnu við fjölskyldustefnu Múlaþings. Jafnframt fól ráðið sviðsstjórum að koma með tillögu að skipulagi við vinnuna.
Samningar hafa náðst við North Consulting, fyrirtæki í stefnumótun og ráðgjöf. Það eru þær María Kristín Gylfadóttir og Elín Thorarensen sem stýra vinnunni en þær eru þaulreyndar í hvers kyns stefnumótunarvinnu og hafa meðal annars unnið að menntastefnu Kópavogsbæjar, að undirbúningi að stofnun rannsóknarseturs í skapandi greinum og stýrt þróun námsefnis og námsgagna.
Við vinnu sem þessa er staldrað við og metið hvernig unnið hefur verið í málaflokknum hingað til, þær ákvarðanir endurmetnar og fyrst og fremst horft til framtíðar í nýju sveitarfélagi. Með fjölskyldustefnu, þar sem hagaðilar koma að borðinu við vinnu og mótun, er byggð upp sameiginleg sýn til framtíðar.
Vinnan við fjölskyldustefnu sveitarfélagsins er hafin og er stefnt að því að hún verði kláruð fyrir lok árs 2024.