Hinsegin Austurland stendur fyrir metnaðarfullri dagskrá á Regnbogahátíðinni í ár. Skemmtilegir viðburðir verða alla helgina og dreifast á milli Egilsstaða, Seyðisfjarðar og í Fljótsdal og byrjar gamanið strax í dag, föstudag.
Það má lesa allt um dagskránna á Facebook síðu Hinsegin Austurlands. Þar kennir ýmissa grasa og verða til dæmis kökukeppnir bæði á Egilsstöðum og Seyðisfirði, það verður uppistand á Tehúsinu, Hýra halarófan verður á sínum stað, það verður hátíðardagskrá á Egilsstöðum sem og Seyðisfirði og hægt verður að sækja fría tónleika í Fljótsdalinn.
,,Hátíðin er fyrir öll á Austurlandi, hinsegin fólk, aðstandendur og velunnara.“ að sögn Jódísar Skúladóttur sem er í stjórn Hinsegin Austurlands.
Jódís segir einnig að ,,sýnileiki er mikilvægur í allri mannréttindabaráttu. Það er dýrmætt að fagna sigrum í baráttunni en einnig að minnast þess hvaðan við erum að koma.“
Halarófan 10 ára
Í ár eru komin tíu ár síðan Snorri Emilsson, í fylgd nokkurra annarra, gekk Regnbogagötuna fram og aftur í fyrsta skipti, því hann komst ekki suður í Gleðigönguna. Síðan þá hefur Hýra halarófan heldur betur undið upp á sig og mætir nú fólk úr öðrum kjörnum landsfjórðungsins til að ganga líka. Genginn er dágóður hringur um Seyðisfjörð, þátttakendur eru gjarnan klædd litríkum fötum, Snorri sjálfur dansar á palli bíls og spilar tónlist fyrir þá sem arka á eftir bílnum. Gleðin og samheldnin er alltumlykjandi. Þarna er komið til að fagna, styðja, gleðjast og sýna samstöðu.
Tökum höndum saman, verum litrík
Íbúar eru hvött til að kynna sér það sem í boði er og endilega taka þátt í að fagna fjölbreytileikanum. Það er meðal annars hægt að gera með því að taka þátt í viðburðum, ganga í litríkum fötum, taka þátt í umræðunni og hafa regnbogafána sýnilega, svo fátt eitt sé nefnt.