Tillaga að fyrstu fjárhagsáætlun Múlaþings fyrir árið 2021 ásamt 3ja ára áætlun fyrir 2022-2024 verður lögð fram til fyrri umræðu í sveitarstjórn Múlaþings á fundi þann 11. nóvember 2020. Seinni umræða er áætluð þann 11. desember 2020. Var áætluninn afgreidd af byggðaráði þann 3. nóvember og vísað til fyrri umræðu.
Tillaga að framlagðri fjárhagsáætlun er byggð á þeirri vinnu og þeim römmum sem unnin var síðastliðið sumar af starfsmönnum og nefndum þeirra sveitarfélaga sem nú heyra undir hið nýja sveitarfélag Múlaþing.
Samkvæmt sveitarstjórnarlögum skal fjárhagsáætlun vera tilbúin eigi síðar en 1. nóvember til fyrri umræðu í sveitarstjórn og skal samþykkt eigi síðar en 15. desember.
Þriggja ára áætlun er hluti af þeirri áætlun sem hér er lögð fram.
Þar sem þetta er í fyrsta skipti sem lögð er fram fjárhagsáætlun fyrir hið nýja sameinaða sveitarfélag Múlaþing, þar sem sameining tók formlega gildi í byrjun október 2020, er ljóst að á milli umræðna í sveitarstjórn getur áætlunin tekið einhverjum breytingum. Verið er að ljúka 9 mánaða lokun á bókhaldi fráfarandi sveitarfélaga og mun sú vinna væntanlega klárast nú í nóvembermánuði.