Aðgerðastjórn almannavarna á Austurlandi hefur lagt til að engar áramótabrennur verði haldnar á Austurlandi þetta árið í ljósi sóttvarnartakmarkana sem í gildi eru. Með tilliti til þessa og óvissu varðandi þróun smita í samfélaginu hefur öllum brennum í Múlaþingi því verið aflýst. Þrátt fyrir að áramótabrennur fari fram utandyra draga þær að sér fjölda fólks og mikilvægt er að sveitarfélög hvetji ekki til hópamyndunar við þessar aðstæður sem nú eru uppi.
Flugeldasýningar verða eftir sem áður haldnar í samstarfi við björgunarsveitir 31.desember 2021:
Borgarfjörður
Flugeldasýning verður gerð frá norðurenda flugvallarins og hefst kl. 21:00
Djúpivogur
Flugeldasýning verður gerð frá Rakkabergi og hefst kl. 17:15
Egilsstaðir
Flugeldasýning verður gerð frá Þverklettum og hefst kl 17:00
Seyðisfjörður
Flugeldasýning verður gerð frá Strandabakka og hefst kl. 17:00
Ákvörðunin veldur eflaust vonbrigðum margra, en það er mikilvægt fyrir okkur að vinna áfram saman að því að fækka smitum, m.a. með því að forðast mannmergð. Í þessu ljósi eru íbúar hvattir til þess að njóta flugeldasýninga að heiman eða úr bílum sínum, safnast ekki saman í stórum hópum og virða fjarlægðartakmörk.