Sumardaginn fyrsta verða börnum á Austurlandi og fjölskyldum þeirra boðið upp í dans í tilefni Diskó friskó, sem er liður í BRAS, menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi. Tilefni viðburðarins er afmælisdagur Prins Pólós, enn hann er 26. apríl og er planið að gleðjast og dansa í hans minningu.
Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir verkefnastjóri BRAS var spurð út í það hvaðan hugmyndin að Diskó friskó væri sprottin og svaraði til: ,,Hugmyndin að diskótekinu kviknaði í fyrra vor þegar við vorum að undirbúa umsókn í Barnamenningarsjóð. Við vorum búin að ákveða að heiðra minningu Svavars Péturs og okkur fannst liggja svo í augum uppi að það yrði að vera partý!! Gleði þar sem öll gætu komið saman og glaðst í hans anda. Diskótek virtist því augljóst val, þar sem við gætum hist, dansað saman og heiðrað minningu hans.“
Í Múlaþingi verður dansað á tveimur stöðum, í Sláturhúsinu á Egilsstöðum og í íþróttamiðstöðinni á Djúpavogi. Íbúar annarra kjarna eru hvött til þess að nýta sér tækifærið og mæta á diskó á öðrum hvorum staðnum. Diskó friskó er frá 16:30-18:00 og eru öll velkomin og frítt er inn á viðburðinn!
Halldóra Dröfn vill að tilefnið sé notað til þess að staldra við og finna fyrir þakklæti: ,,Það sem mig langar til að gerist er að það verði góð mæting og að við gætum þess að muna hvað við erum heppin að fá að búa á Íslandi, hvað við erum heppin að geta dansað og glaðst saman. Mig langar að við sýnum auðmýkt og þakklæti fyrir lífið.“