Erna Kristín Stefánsdóttir, guðfræðingur og talskona jákvæðrar líkamsímyndar ferðast þessa dagana um Múlaþing og Fjarðabyggð og breiðir út boðskap líkamsvirðingar í unglingadeildum allra grunnskólanna auk Menntaskólans á Egilsstöðum.
„Við förum yfir mikilvægi þess að elska líkamann okkar eins og hann er hér og nú, og gegnum allar breytingar. Við tölum um að bera virðingu fyrir líkömum annara ásamt því að fara yfir helstu verkfæri til þess að halda fókus í jákvæðri líkamsímynd,“ segir Erna Kristín sem hefur sjálf glímt við afleiðingar neikvæðrar líkamsímyndar en náð að snúa við blaðinu.
Fimmtudaginn 7. október klukkan 20 verður opin fræðsla fyrir foreldra um jákvæða líkamsímynd í gegnum Teams en hlekk á fundinn má nálgast hér.
„Ég held það sé mjög mikilvægt að fræða foreldra svo börn upplifi sig í öruggu rými heima fyrir þegar kemur að jákvæðri líkamsímynd. Foreldrar þurfa líka að vera meðvitaðir um mikilvægi jákvæðrar líkamsímyndar í uppeldi vegna þess að neikvæð líkamsímynd getur haft mjög slæm áhrif á sjálfsmynd ungmenna,“ segir Erna Kristín.
Fyrirlestraröðin er samstarfsverkefni Múlaþings og Fjarðabyggðar sem hefur það markmið að efla sjálfsmynd ungmenna í sveitarfélaginu.