Í vor var sett af stað söfnun á Seyðisfirði fyrir svo kölluðum Bláum kubbum; skemmtilegum og umhverfisvænum leikföngum sem ekkert nema ímyndunaraflið setur mörk í notkun. Skemmst er frá því að segja að söfnunin gekk vonum framar, einstaklingar, fyrirtæki og félagasamtök sáu til þess. Söfnunin gekk það vel að einnig var fjárfest í viðhaldsfríum bekkjum og borðum, sem sett voru við leikvöll bæjarins, á leikskólalóðina og einnig, ásamt leiktækjum, í Lystigarðinn við Vesturveg.
Kubbarnir eru nú komnir á Seyðisfjörð, frábær viðbót fyrir samfélagið og gesti þess. Til að prófa kubbana, skoða og leika með má heimsækja félagsheimilið Herðubreið sem er opið í sumar frá klukkan 12-17 á virkum dögum og frá klukkan 13-17 á sunnudögum.
Einnig er fyrirhugað að taka þá út undir bert loft þegar tækifæri gefst til og setja upp óvænta leikvelli hér og þar um bæinn. Það var einmitt gert eina viku í júlí, í 20 stiga sumarblíðu, og líklegast komu um 50 börn að leika sér með þá á tæpum þremur klukkustundum, bæði börn úr bænum og ferðafólk. Ótrúlega gaman var að fylgjast með hvernig börnin bjuggu til mismunandi leiki, hús, rennibrautir, bíl og vopn í tölvuleik svo eitthvað sé nefnt.
Fyrir frekari upplýsingar um bláu kubbana má hafa samband við Elfu Hlín í síma 895-7966, Kötlu Rut í síma 663-1585 eða á netfangið elfahlin@yahoo.com
Fyrir frekari upplýsingar um söfnunina og kubbana, hér.