Fara í efni

Bangsimon og vinir á ferð og flugi um Múlaþing

18.07.2024 Fréttir

Íbúar Múlaþings ættu flestir að kannast við Leikhópinn Lottu, enda hefur hópurinn haft viðkomu í sveitarfélaginu í áraraðir. Sumarið í ár verður engin undantekning og ætlar hópurinn að gleðja íbúa með leikritinu um Bangsimon og vini hans.

Höfundur verksins er Anna Bergljót Thorarensen, en þetta er tólfta verkið sem hún semur fyrir hópinn, hún sér einnig um leikstjórn. Leikhópurinn er einnig aðdáendum Lottu að góðu kunnur en hann samanstendur af Andreu Ösp Karlsdóttur, Sigsteini Sigurbergssyni, Þórunni Lárusdóttur, Stefáni Benedikt Vilhelmssyni og Sumarliða V Snæland Ingimarssyni. Tveir síðastnefndu er sveitarfélaginu sérstaklega vel kunnir en bæði Stefán og Sumarliði slitu barnskónum á Egilsstöðum. 

Flestir kannast við vinalega bangsann hann Bangsimon, vini hans Gríslinginn, Kaniku, Eyrnaslapa og Ugluna svo þau þarf vart að kynna. Í höndum Lottu hefur sögunni um þessa vini verið gefið nýtt líf og lifna persónurnar nú loksins við frammi fyrir augunum á áhorfendum. Eins og Lottu er von að vísa eru tíu glæný íslensk lög í sýningunni, mikið af dönsum og heill hellingur af bröndurum, bæði fyrir börn og fullorðna. Sýningin er klukkutími að lengd og skipta leikararnir á milli sín öllum hlutverkunum.

Þegar Anna Bergljót, höfundur og leikstjóri verksins var spurð af því af hverju Bangsimon varð fyrir valinu sagði hún ,,Bangsimon er búið að vera á listanum ansi lengi en loksins var sagan að detta úr höfundarrétti og þá stökk ég þá á tækifærið að geta leikið mér með Bangsimon og vini hans úr Hundraðekruskógi."

Leikhópurinn Lotta hefur ferðast um landið síðan 2007 og Anna Bergljót hefur í ósjaldan verið í leikarahópnum og því var hún spurð hvað væri skemmtilegast við að ferðast um landið með svona sýningu ,,Þetta eru náttúrulega algjör forréttindi að fá að ferðast svona um allt landið og að fá að koma á alla þessa staði. Það skemmtilegasta er eiginlega tvennt. Það er annars vegar þessi djúpa samvera með vinnufélögunum, með vinum sínum, að vera svona mikið saman og kynnast svona mikið með því að lifa og hrærast saman. Þá eru það hins vegar náttúrulega aðdáendurnir okkar, fólkið sem að kannski fær ekki jafn mikið menningaráreiti og við gerum sem að búum í höfuðborginni. Þakklætið og gleðin yfir því að við erum komin kitlar á fallegasta hátt sem hægt er að lýsa."

Að venju er leikritið sýnt utandyra og er því mælt með að klæða sig eftir veðri og jafvel taka teppi með, nesti til að maula á og myndavélar því eftir sýningarnar fá krakkarnir tækifæri til að hitta sínar uppáhalds persónur og taka af þeim myndir.

En við hverju má búast? ,,Áhorfendur mega búast við að hitta yndislegan bangsa og vini hans og mega gera ráð fyrir því að hlæja mikið og mögulega gráta smá og upplifa töfra ævintýraskógarins beint í hjartað" sagði Anna Bergljót og bætti við ,,og þau sem vilja hlusta á lögin, eða jafnvel alla söguna áður en við komum til þess að geta tekið undir með í lögunum þá er hægt að finna öll ævintýri Lottu á Spotify. Þannig er hægt að hlusta á okkur hvar og hvenær sem er og hentar það afskaplega vel í bílnum, á ferðalögum og áður en maður fer að sofa á kvöldin."

,,Þúsund þakkir fyrir að taka alltaf svona vel á móti okkur. Við værum ekki til án ykkar sem alltaf fylgist með. Við hlökkum til að mæta í Múlaþing og skemmta íbúum þar." Sagði Anna Bergljót að lokum og hvetur sveitarfélagið íbúa til að nýta sér þetta frábæra tækifæri og kíkja á leikhópinn á ferð hans um landshlutann! 

Sýningar innan Múlaþings verða á eftirtöldum stöðum: 

  • 23. júlí kl. 17:00 á túninu við Bláu kirkjuna á Seyðisfirði
  • 24. júlí kl. 17:00 í Neistabrekkunni á Djúpavogi
  • 26. júlí kl. 17:00 í Tjarnargarðinum á Egilsstöðum
  • 27. júlí kl. 11:00 á fótboltavellinum á Borgarfirði eystri

 

 

 

Bangsimon og vinir á ferð og flugi um Múlaþing
Getum við bætt efni þessarar síðu?