Haraldur Gústafsson, sem keppir fyrir Skotfélag Austurlands (SkAust), vann sér inn fjórða og fimmta Íslandsmeistaratitil sinn í bogfimi á Íslandsmeistaramótinu í bogfimi innandyra sem fram fór í Bogfimisetrinu í Reykjavík helgina 25.-26. febrúar 2023.
Sigraði Haraldur keppni í sveigboga karla og sveigboga (unisex, keppni óháð kyni) og var fyrsti Íslendingurinn til að hljóta þann titil en keppnin er ný af nálinni.
Haraldur lét ekki þar við sitja heldur keppti einnig um Íslandsmeistaratitil í blandaðri félagsliðakeppni með Guðnýju Grétu Eyþórsdóttur og hrepptu þau silfrið. Þá fékk Haraldur ein alþjóðleg silfurverðlaun á mótinu og hann og Guðný Gréta slógu Íslandsmet öldunga í félagsliðakeppninni.
Haraldur byrjaði að prófa sig áfram í bogfimi árið 2013 en síðan þá hefur hann hlotið þjálfararéttindi og er að þjálfa bogfimi í íþróttahúsinu í Fellabæ og á sumrin á Eiðum. Bogfimin heyrir undir Skaust, skotfélag austurlands.
Því verður einnig að bæta við að Daníel Baldursson, efnilegur austfirskur skotfimimaður sigraði íslandsmeistaratitil í trissuboga snemma í febrúar í undir 21 árs flokki á Íslandsmóti ungmenna.
Er Haraldi, Guðnýju Grétu og Daníel óskað innilega til hamingju með stórglæsilegan árangur.