Múlaþing vinnur nú að umferðaröryggisáætlun fyrir sveitarfélagið. Markmið hennar að búa til aðgerðaráætlun svo auka megi öryggi, fækka slysum og auka lífsgæði íbúa sem og annarra sem ferðast um sveitarfélagið.
Mikilvægur grundvöllur vinnunnar er að kortleggja hætturnar í umferðinni. Kortlagningin hættustaða mun ekki bara byggja á hvar slysin hafa átt sér stað heldur einnig taka mið af mikilvægri upplifun vegfarenda á varasömum stöðum og mögulegum hindrunum í gatna- og stígakerfinu.
Því hefur Múlaþing ákveðið að efna til stafræns íbúasamráðs þar sem öllum íbúum gefst tækifæri á að senda inn ábendingar svo tryggja megi öryggi gangandi, hjólandi og akandi vegfarenda í sveitarfélaginu. Við viljum fá ábendingar varðandi hættustaði sem þið upplifið í umferðinni ásamt kortlagningu á staðsetningar þeirra.
Opið verður fyrir ábendingar til 24. júní næstkomandi.
Láttu í þér heyra því þú þekkir þitt nærumhverfi best!