Ársreikningur Múlaþings fyrir árið 2021 verður lagður fram til fyrri umræðu í sveitarstjórn Múlaþings þann 13. apríl 2022, samþykktur og áritaður af byggðaráði og sveitarstjóra. Samkvæmt sveitarstjórnalögum skal fjalla um ársreikninginn á tveimur fundum í sveitarstjórn og er áætlað að síðari umræða fari fram miðvikudaginn 11. maí 2022.
Helstu niðurstöður
- Rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir, fjármagnsliði og tekjuskatt (EBITDA) í samstæðureikning Múlaþings var jákvæð um 1.106 millj. kr. á árinu 2021 eða um 12,8% í hlutfalli af rekstartekjum.
Hjá A hluta nam EBITDA 316 millj. kr. á árinu 2021 eða um 4,7% í hlutfalli af rekstartekjum. - Hrein fjármagnsgjöld námu 466 millj. kr. í samstæðu A og B hluta en samanlögð fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir 453 millj. kr. Hrein fjármagnsgjöld A hluta námu 366 millj. kr. en samanlögð fjárhagsáætlun ársins gerði ráð fyrir 312 millj. kr.
- Rekstrarafkoma Múlaþings árið 2021 var jákvæð um 92 millj. kr. samkvæmt samstæðureikningi sveitarfélagsins en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir 5 millj. kr. rekstrarafgangi. Rekstarafkoma A hluta var neikvæð um 287 millj. kr. en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir 251 millj. kr. rekstarhalla.
- Rekstarniðurstaða bæði fyrir A hluta og samstæðu A og B hluta litast af mikilli hækkun lífeyrisskuldbindinga vegna breytinga á lífslíkum og auknu greiðsluhlutfalli sveitarfélagsins. Gjaldfærsla í rekstri vegna þessa nam um 287 millj. kr. á árinu 2021 samanborið við 95 millj. kr. á árinu 2020 og 70 millj. kr. samkvæmt áætlun.
- Veltufé frá rekstri nam 1.070 millj. kr. á árinu 2021 í samstæðu A- og B hluta eða 13,6% sem hlutfall af rekstartekjum. Veltufé frá rekstri í A hluta nam 438 millj. kr. eða 6,5% sem hlutfall af rekstartekjum.
- Eigið fé var jákvætt í árslok 2021 um 2.668 millj. kr. í samstæðu A- og B hluta að teknu tilliti til hlutdeildar minnihluta. Eigið fé A hluta var jákvætt um 1.119 millj. kr. í árslok 2021.
- Skuldir og skuldbindingar samstæðu A- og B hluta námu í árslok 2021 um 10.785 millj. kr. og hækka um 373 millj. kr. frá árinu 2020. Skuldaviðmið skv. reglugerð um fjárhagsleg viðmið fyrir samstæðureikning A og B hluta er 99% í árslok 2021.
Ársreikning er að finna hér.
Nánari upplýsingar veita Björn Ingimarsson, sveitarstjóri og Guðlaugur Sæbjörnsson fjármálastjóri.