Nýtt sorphirðukerfi hefur verið tekið í gagnið á öllum heimilum í Múlaþingi í takt við lagabreytingar sem tóku gildi 1. janúar 2023 og er röðin nú komin að fyrirtækjum og stofnunum.
Er vinsamleg ábending því hér með send til rekstraraðila og fyrirtækja á svæðinu að hafa samband við sinn þjónustuaðila til að uppfylla nýjar kröfur um söfnun sorps. Samkvæmt nýjum lögum þarf að aðskilja pappír og pappa frá plasti ásamt því að lífrænn úrgangur skal aðskilinn frá blönduðum úrgangi.
Múlaþing vonast eftir góðum viðbrögðum hjá fyrirtækjum og rekstraraðilum á svæðinu við að innleiða þessar breytingar á sorpflokkun og hrósar þeim fyrirtækjum sem þegar hafa brugðist við og eru komnir á fullt í að flokka samkvæmt nýju kerfi.