Árlega fær Slökkvilið Múlaþings mörg útköll vegna þess að vegfarendur hringja inn til neyðarlínu og tilkynna að eldur eða reykur hafi sést. Slík símtöl eru mikilvæg og geta skipt sköpum. Mikið af þessum símtölum hafa þó verið vegna þess að einstaklingar eru sjálfir að kveikja í. Slík útköll kosta samfélagið mikið. Auðvitað eiga vegfarendur að hringja ef þeir verða varir við eld eða reyk en vegna þessa vill slökkviliðið árétta að bannað er samkvæmt lögum að brenna rusl, að undandskyldu hreinu timbri sem er undir einum rúmmetra. Slökkvilið Múlaþings vill beina því til íbúa sveitarfélagsins að leita annarra leiða til að losa sig við rusl sitt. Við þetta vill sveitarfélagið bæta að íbúar geti komið með sorp á móttökustöðvar sér að kostnaðarlausu á meðan verið er að vinna að úrbótum á sorphirðu. Það þarf að láta vita að um sé að ræða úrgang sem ekki hafi verið hirtur í lengri tíma.
Þá vill slökkviliðið brýna fyrir fólki að yfirfara eldvarnir heimilisins fyrir jólin.
Að lokum sendir Slökkvilið Múlaþings íbúum jólakveðju og ósk um farsæld á nýju ári.