Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs samþykkti á fundi sínum þann 2. september 2020 að auglýsa að nýju tillögu að breytingu á deiliskipulagi flugvallar á Egilsstöðum, skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 ásamt greinargerð með tilkynningu til Skipulagsstofnunar vegna ákvörðunar um matsskyldu sbr. 2. mgr. 6.gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 og umhverfisskýrslu.
Deiliskipulagið hefur áður fengið málsmeðferð skv. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og munu allar þær athugasemdir sem áður hafa borist, verða teknar til athugunar og þeim svarað sem um nýjar athugasemdir sé að ræða.
Samkvæmt tillögunni eru helstu breyting á deiliskipulagi flugvallarins þessar:
- Að flugvöllur fullnægi reglugerð og kröfum um stjórnsýslumeðferð er varða flugvelli samkvæmt reglugerð Evrópuþings og ráðsins (EB) nr. 216/2008.
- Deiliskipulagssvæði er stækkað til að gera ráð fyrir framtíðaruppbyggingu flugvallar sbr. greinagerð með aðalskipulagi. Stækkun flughlaðs og bætt við akstursbraut (taxibraut) fyrir flugvélar.
- Byggingareitur (10) stækkaður og færður til fyrir framtíðaruppbyggingu.
- Gert er ráð fyrir framtíðarstaðsetningu nýrra bílastæða.
- Afmarkaðar eru sex nýjar lóðir, þrjár lóðir stækkaðar og lóðum gefin götuheiti í stað númera á byggingareit. Gerð er lóð utan um Flugstöðvarbyggingu. Gerðar eru fimm nýjar lóðir fyrir flugtengda starfsemi.
- Framtíðar aðkoma flugvallar færist. Að öðru leyti gilda eldri skilmálar.
Tillagan er sett fram á uppdrætti með greinagerð sem sýnir skipulagið fyrir og eftir breytingu ásamt þremur skýringaruppdráttum dagsettum 13. mars 2020.
Eftirtalin fylgiskjöl fylgja með deiliskipulagi þessu:
- Greinagerð með tilkynningu til ákvörðunar um matskyldu og umhverfisskýrsla dagsett, mars 2020 og
- Fornleifaskráning dagsett sept. 2018.
- Tillagan liggur frammi á bæjarskrifstofum Fljótsdalshéraðs að Lyngási 12, Egilsstöðum og er aðgengileg á vef Fljótsdalshéraðs.
Nýjar athugasemdir eða ábendingar skulu vera skriflegar. Frestur til að skila inn athugasemdum er til föstudagsins 23. október 2020. Skila skal athugasemdum til skipulags og byggingarfulltrúa Fljótsdalshéraðs, Lyngási 12, 700 Egilsstöðum eða á netfangið byggingarfulltrui@fljotsdalsherad.is
f.h. bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs
Sigurður Jónsson
Skipulags- og byggingarfulltrúi