Fara í efni

Staða samgönguverkefna í sveitarfélaginu

Málsnúmer 202010420

Vakta málsnúmer

Sveitarstjórn Múlaþings - 2. fundur - 14.10.2020

Til máls tóku: Stefán Bogi Sveinsson, sem kynnti fyrirliggjandi tillögu. Berglind Harpa Svavarsdóttir, Jakob Sigurðsson, Hildur Þórisdóttir, Elvar Snær Kristjánsson, Þröstur Jónsson, Vilhjálmur Jónsson, Stefán Bogi Sveinsson, Eyþór Stefánsson og Jakob Sigurðsson.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Sveitarstjórn Múlaþings beinir því til Alþingis, ríkisstjórnar og Vegagerðarinnar, að þörf er á verulegum samgöngubótum innan þessa nýja og víðfeðma sveitarfélags.
Sveitarstjórn leggur því þunga áherslu á að staðið verði við þau fyrirheit sem gefin voru í tengslum við sameiningu sveitarfélaganna fjögurra og að tenging byggðakjarna innan sveitarfélagsins, með bundnu slitlagi á Borgarfjarðarvegi, heilsársvegi yfir Öxi og jarðgöngum undir Fjarðarheiði verði hraðað eins og kostur er og hvergi seinkað frá því sem nú liggur fyrir í gildandi samgönguáætlun og þeim áætlunum um flýtingu framkvæmda sem þegar liggja fyrir.
Jafnframt hvetur sveitarstjórn Vegagerðina sérstaklega til að huga að lagningu bundins slitlags á hina víðfeðmu tengivegi sveitarfélagsins og að viðhaldi og viðgerðum á vegum innan þess verði sinnt svo sem vera ber.
Einnig bendir sveitarstjórn á að rík þörf er á að endurnýja veginn um Efra-Jökuldal og huga að hringtengingu þar inn úr, í ljósi aukins ferðamannastraums um svæðið.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Sveitarstjórn Múlaþings - 3. fundur - 11.11.2020

Til máls tóku: Gauti Jóhannesson, sem kynnti tillöguna og meðfylgjandi greinargerð. Þröstur Jónsson, Eyþór Stefánsson og Gauti Jóhannesson.

Alþjóðaflugvöllurinn á Egilsstöðum hefur mikilvægu hlutverki að gegna sem gátt inn í landið hvort tveggja í þágu Austurlands og íslenskrar ferðaþjónustu í heild sinni. Samhliða uppbyggingu í laxeldi hafa einnig opnast miklir möguleikar tengdir útflutningi á ferskvöru. Samband sveitarfélaga á Austurlandi og Austurbrú hafa undanfarin ár lagt mikla áherslu á markaðssetningu flugvallarins m.a. annars í tengslum við sóknaráætlun landshlutans og stefnt er að því að auka umferð millilandafarþega um flugvöllinn umtalsvert á næstu árum. Verulegra fjárfestinga er þörf á vellinum vegna skorts á viðhaldi á undanförnum árum auk aðgerða svo flugvöllurinn standi undir kröfum sem gerðar eru til fyrsta varaflugvallar Keflavíkurflugvallar, t.d. varðandi flughlað, akstursbraut, yfirlögn á flugbraut og þjónustu. Afar brýnt er að hefja sem fyrst vinnu við mat á þörf fyrir uppbyggingu innviða og þjónustu á Egilsstaðaflugvelli með hliðsjón af tækifærum vallarins sem áfangastaðar fyrir erlenda ferðamenn og vöruflutninga.


Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Sveitarstjórn Múlaþings beinir þeim tilmælum til stjórnar Austurbrúar að hún beiti sér fyrir skipan aðgerðahóps hið fyrsta, sem hafi það hlutverk að gera tillögur að endurbótum og uppbyggingu á Egilsstaðaflugvelli í samræmi við fyrirsjáanlegar þarfir. Jafnframt verði teknar saman upplýsingar um markaðssetningu og áform ferðaþjónustunnar og fiskútflytjenda á svæðinu með það fyrir augum að kostnaðargreindar hugmyndir um nauðsynlegar endurbætur á þjónustu og mannvirkjum liggi fyrir sem fyrst.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

Heimastjórn Djúpavogs - 3. fundur - 30.11.2020

Heimastjórn á Djúpavogi krefst þess að betur verði staðið að þjónustu á Öxi. Vegagerðin hefur ekki sinnt hlutverki sínu sem snýr að umferðaröryggi og hefur verið látið hjá líðast að kanna aðstæður þar þegar eitthvað er að færð. Dæmi eru um að stofnunin giski á aðstæður sem verða til þess að fólk lendir í vandræðum þegar aðstæðurnar eru þannig að hægt væri að bregðast við þeim með litlum tilkostnaði. Enn fremur er það skýlaus krafa heimastjórnar að vetrarþjónusta verði tekin upp að nýju á veginum enda er eftir sameiningu um samgöngur innan sveitarfélags að ræða. Formanni heimastjórnar falið að fylgja erindinu eftir.
Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

Byggðaráð Múlaþings - 34. fundur - 05.10.2021

Farið yfir stöðu samgöngumála í sveitarfélaginu og þær áherslur er gert var ráð fyrir í tengslum við sameiningu sveitarfélaganna fjögurra í Múlaþing.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Byggðaráð Múlaþings ítrekar þær áherslur er fram hafa verið settar af hálfu sveitarfélagsins varðandi samgöngumál. Sérstök áhersla er lögð á mikilvægi þess að ráðist verði sem fyrst í nauðsynlega uppbyggingu Egilsstaðaflugvallar, bæði hvað varðar farþegaflug og flutningsþjónustu. Mikilvægt er að stjórnvöld bregðist við í samræmi við áherslur er fram koma í skýrslu um framtíðartækifæri Egilsstaðaflugvallar og unnin var af Isavia o.fl. Vinnu við lokahönnun vegna Fjarðarheiðarganga verði flýtt þannig að hægt verði að bjóða út framkvæmdina á árinu 2022 og að ráðist verði í framkvæmdir við heilsársveg yfir Öxi á árinu 2022. Þess verði jafnframt gætt að vetrarþjónusta á vegum í nýju sameinuðu sveitarfélagi verði með ásættanlegum hætti.
Sveitarstjóra falið að koma þessum áherslum á framfæri við þingmenn kjördæmisins sem og ráðherra samgöngumála.

Samþykkt samhljóma.
Getum við bætt efni þessarar síðu?