Konur eru viðfangsefni sumarsýninga sem nú standa yfir í þremur söfnum í Múlaþingi.
Á Tækniminjasafni Austurlands á Seyðisfirði er dregin upp mynd af störfum kvenna á Seyðisfirði um aldamótin 1900 með áherslu á reynsluheim þeirra og framlag til atvinnulífsins. Sýningin er í útigallerýi safnsins við Lónsleiru.
Á Héraðsskjalasafni Austfirðinga verður sögð saga Margrétar Sigfúsdóttur, 20. aldar verkakonu, kennara og skálds í Fljótsdal. Sýningin er á neðstu hæð Safnahússins á Egilsstöðum.
Síðast en ekki síst beinir Minjasafn Austurlands sjónum að landnámskonunni og þar eru til sýnis forngripir sem ekki hafa áður verið sýndir opinberlega, annars vegar frá Firði í Seyðisfirði og hins vegar gripir sem fundust hjá fjallkonunni svokölluðu á Vestdalsheiði árið 2004. Sýningin er í sýningarsal safnsins í Safnahúsinu á Egilsstöðum og er sett upp í samstarfi við Antikva, Rannsóknarsetur HÍ á Austurlandi og Þjóðminjasafn Íslands.
Sýningarnar hlutu styrki úr Uppbyggingarsjóði Austurlands, úr samfélagssjóði Alcoa Fjarðaáls og frá Múlaþingi.