Hátíðin Dagar myrkurs verður haldin hátíðlega í 23. skipti vikuna 31. október til 6. nóvemeber.
Hátíðin hefur fests í sessi sem sameiginleg byggðahátíð allra íbúa á Austurlandi og hefur það að leiðarljósi að leggja áherslu á viðburði sem hvetja til samveru íbúa.
Í ár, sem endranær, eru íbúar, fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök hvött til að búa til viðburði sem öll geta tekið þátt í.
Mánudaginn 31. október er Hrekkjavaka og þann dag er stefnt á að hafa búningadag í öllum fjórðungnum. Á Hrekkjavöku eru fyrirtæki, skólar og aðrar stofnanir sérstaklega hvattar til að gera sér glaðan dag. Það væri til dæmis hægt er að veita verðlaun innan fyrirtækja fyrir frumlegasta búninginn, fallegasta búninginn og/eða hræðilegasta búninginn.
Minnt er á að hátíðin á sér sterkar rætur en uppruna Hrekkjavöku, sem haldin er 31. október ár hvert, má rekja til Kelta. Til forna færðu þeir þakkir fyrir uppskeru sumarsins og kölluðu hátíðina sína hátíð hinna dauðu. Sambærileg hátíð var haldin á Íslandi fyrir kristnitöku er kölluð var Veturnætur og hefur þjóðfræðingurinn Terry Gunnell bent á að Hrekkajvökuhátíðin eigi sér þannig í raun íslenskan uppruna. Þessi keltneska/íslenska hátíð fluttist síðan til vesturheims með Keltum og þekkjum við hana í dag sem Hrekkjavöku.
Ljósmyndasamkeppnin verður á sínum stað. Þemað ,,myrkur“ ætti að einkenna þær myndir sem sendar eru inn. Öllum er velkomið að taka þátt. Það eina sem þarf að passa er að senda myndirnar á netfangið dagarmyrkurs@austurbru.isog er síðasti skiladagur 6. nóvember næstkomandi. Verðlaun uppá 50.000.- verða veitt fyrir fyrsta sætið og Austurbrú áskilur sér rétt til að nota innsendar myndir til að kynna hátíðina.
Einnig verða veitt verðlaun fyrir best skreyttu gluggana. Verðlaunin verða í formi gjafabréfa frá fyrirtækjum á Austurlandi. Myndir af þeim skal einnig senda á netfangið dagarmyrkurs@austurbru.isog er síðasti skiladagur einnig 6. nóvember næstkomandi.
Íbúar Austurlands eru hvött til þess að taka virkan þátt í Dögum myrkurs sem er sameiginleg byggðahátíð fjórðungsins.
Lýsingar og tímasetningar á viðburðum verða aðgengileg á heimasíðum sveitarfélaganna, Facebook og Instagram, undir Dagar myrkurs.
Öll sem hafa áhuga á að bjóða uppá opna viðburði eru beðin að hafa samband við verkefnastjóra Daga Myrkurs Halldóru Dröfn Hafþórsdóttur (dora@austurbru.is) og/eða Heiðdísi Hólm (heiddis.gudmundsdottir@mulathing.is) verkefnastjóra menningarmála hjá Múlaþingi.
Þeir sem stofna viðburði á Facebook eru hvattir til að gera Daga myrkurs að „Cohost“.
Einnig má endilega senda fréttir og myndir af lokuðum viðburðum, eins og til dæmis í skólum eða fyrirtækjum, þannig er hægt að deila skemmtilegum uppákomum.
Íbúar eru hvattir til að vera dugleg að taka myndir og deila þeim undir myllumerkinu: #dagarmyrkurs og #austurland.