Múlaþing skrifaði nýlega undir samstarfssamning við Samtökin '78 um víðtæka fræðslu í Múlaþingi en Samtökin '78 hafa átt í góðu samstarfi við sveitarfélagið áður og hinsegin og kynsegin fræðsla á þeirra vegum er nú fest enn betur í sessi.
Um er að ræða fræðslusamning sem tekur til starfsfólks, stjórnenda, kjörinna fulltrúa, íþróttafélaga og barna og unglinga í sveitarfélaginu. Eins ráðgjöf fyrir íbúa í Múlaþingi, til að mynda forráðafólks og fjölskyldna, án endurgjalds en hjá Samtökunum '78 starfa ráðgjafar sem gott er að leita til. Samtökin '78 hafa undanfarið gert slíka samninga við ýmis sveitarfélög landsins, meðal annars nágrannasveitarfélagið Fjarðabyggð og er Múlaþing stolt af því að bætast í þann hóp.
Ungmennaráð Múlaþings bókaði á 19. fundi sínum, þann 12. desember 2022, beiðni um aukna fræðslu um hinsegin málefni og mikilvægi þess að Múlaþing sé leiðandi í jafnréttismálum og sporni gegn óæskilegri orðræðu og fordómum: Í ljósi þeirrar þróunar sem hefur verið upp á síðkastið, þar sem tilverurétti hinsegin fólks hefur ítrekað verið ógnað, kallar ungmennaráð eftir því að allar stofnanir sveitarfélagsins auki fræðslu um hinsegin málefni. Sérstaklega er mikilvægt að fræðslan sé stóraukin fyrir starfsfólk og nemendur grunn- og leikskóla og einnig að séð sé til þess að foreldrar og forsjáraðilar fá aukna fræðslu. Íbúar sveitarfélagsins, bæði börn og fullorðin, eiga rétt á því að lifa lífi sínu án áreitis frá samborgurum sínum.
Mikilvægt er að Múlaþing sé leiðandi í jafnréttismálum, sporni gegn óæskilegri orðræðu og fordómum og telur ungmennaráð að hinsegin fræðsla til breiðs hóps samfélagsins sé mikilvægur hluti af því. Með fræðslusamningi er leitast við að stíga skref í átt að opnara, umburðarlyndara og enn betra samfélagi.