Á 26. Sveitarstjórnarfundi Múlaþings þann 10. ágúst 2022, var lögð til sú tillaga að óskað verði eftir viðræðum við innviðaráðuneytið um uppbyggingu Egilsstaðaflugvallar sem alþjóðaflugvallar.
Tillagan var svohljóðandi:
Sveitarstjórn Múlaþings tekur undir með heimastjórn Fljótsdalshéraðs varðandi mikilvægi þess, m.a. í ljósi endurtekinna jarðhræringa og eldsumbrota á Reykjanesskaga, að ráðist verði sem fyrst í frekari uppbyggingu Egilsstaðaflugvallar sem alþjóðaflugvallar. Mikilvægt er að unnið verði í samræmi við Flugstefnu Íslands, sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið gaf út 2019, en þar kemur fram að Egilsstaðaflugvöllur sé í forgangi við uppbyggingu varaflugvalla. Sveitarstjóra falið að koma á fundi með innviðaráðherra varðandi málið.
Sveitastjórn samþykkti tillöguna samhljóða með handauppréttingu.
Hægt er að lesa fundagerðina á heimasíðu Múlaþing og þá er einnig hægt að horfa á upptöku af fundinum á YouTube rás Sveitarstjórnar Múlaþings. Umræðan um flugvöllin hefst á 1:21:37.