Tekist hefur að ná tökum á brunanum á Fagradalsbraut á Egilsstöðum. Unnið er að því að slökkva í glæðum. Gert er ráð fyrir að slökkvistarf haldi áfram fram á kvöld og vegir því lokaðir á meðan. Brunavakt verður við húsið fram á morgun eftir að slökkvistarfi lýkur. Gert er ráð fyrir að rannsókn á upptökum brunans hefjist á morgun.
Aðgerðastjórn bendir á að þar sem reykur hefur legið yfir íbúabyggð á Egilsstöðum getur fólk fundið fyrir einkennum eða óþægindum í öndunarfærum, þá sérstaklega þeir sem hafa undirliggjandi lungnasjúkdóma. Ef fólk finnur fyrir alvarlegum einkennum á sínum sjúkdómi er það hvatt til að hafa samband í síma 1700 eða í síma 112 ef neyðarástand skapast.
Þá er ítrekað að íbúar hafi glugga lokaða í kvöld og í nótt og reyni þannig að tryggja að reykurinn berist ekki inn í hús.
Aðgerðastjórn þakkar öllum er komu að björgunarstörfum, aðstoð og að skipulagi aðgerða; slökkviliði Múlaþings og Fjarðabyggðar, björgunarsveitinni Hérað, Heilsugæslu HSA, sveitarfélaginu Múlaþingi og lögreglu. Þá þakkar hún íbúum fyrir skilninginn vegna þess óhagræðis er fylgdi lokunum og eins fyrir að virða í hvívetna tilmæli um að halda sig til hlés þar sem slökkvistarf stóð yfir og auðvelda þannig slökkvistarf.