Fara í efni

Stór áfangi í samgöngumálum Borgarfjarðar

04.10.2022 Fréttir Borgarfjörður Egilsstaðir

Sá merki áfangi náðist í gærkvöldi að Héraðsverk lauk við að leggja bundið slitlag til Borgarfjarðar eystri og geta Borgfirðingar, íbúar Eiða og Hjaltastaðarþingháa sem og gestir þeirra nú ekið bundnu slitlagi alla leið til og frá Egilsstöðum. Nú er búið að klára síðasta kaflann sem voru 15 kílómetrar frá Eiðum á bænum Laufási en framkvæmdir hófust í ágúst í fyrra.

Viðar Hauksson, verkstjóri hjá Héraðsverki, segir að góð tíð síðustu daga hafi verið notuð til að leggja á síðustu tvo kílómetrana. Þetta hafi verið talsvert verk enda þurfti að sprengja fyrir nýrri veglínu í gegnum Eiðaaxlir og Ketilstaðahæð meðal annars. Nýi vegurinn er beinn og breiður í stað þess gamla sem var hlykkjóttur og alsettur blindhæðum. Miklar framfarir hafa orðið í samgöngumálum Borgfirðinga á síðustu árum eftir að nýr vegur var lagður um Njarðvíkurskriður og slitlag lagt á veginn um Vatnsskarð.

 

 

 

 

Stór áfangi í samgöngumálum Borgarfjarðar
Getum við bætt efni þessarar síðu?