Fara í efni

Skíðavetur í vændum

11.01.2023 Fréttir

Opið hefur verið á Skíðasvæðinu í Stafdal síðustu daga en nægur snjór er á svæðinu og aðstæður góðar fyrir bæði börn og fullorðin, byrjendur og lengra komin. Skíðaæfingar hjá SKÍS, Skíðafélaginu í Stafdal, eru einnig hafnar og var líf og fjör í Skíða- og Ævintýraskólanum um helgina. Eru Austfirðingar allir hvattir til að fjölmenna í Stafdal og nýta snjóinn og þá frábæru aðstöðu sem er til staðar á svæðinu. Er hægt að sjá opnunartíma og verðskrár inni á stafdalur.is.

Föstudaginn 13. janúar verður pizzu föstudagur í fjallinu, en þá er hægt að panta pizzu og verða pizzurnar sendar í fjallið klukkan 18:00 um kvöldið.
Sunnudaginn 15. janúar er Alþjóðlegi snjódagurinn, World Snow Day, sem haldinn er hátíðlegur á skíðasvæðum landsins. Í tilefni dagsins verður boðið upp á gjaldfrjálsa skíðakennslu fyrir byrjendur í Stafdal á milli klukkan 14:00 – 16:00.

Múlaþing tók við rekstri skíðasvæðisins í Stafdal nú á haustmánuðum af SKÍS sem séð hefur um rekstur svæðisins síðan haustið 2011.

Vill Múlaþing þakka SKÍS kærlega fyrir alla sína vinnu við skíðasvæðið síðustu árin en félagið hefur unnið gríðarlega gott og mikið starf á svæðinu, samfélaginu öllu til heilla. Eins hefur SKÍS lyft grettistaki í eflingu skíðaíþróttarinnar á Seyðisfirði og Egilsstöðum eins og sjá má glöggt á aðsókn í Skíða- og Ævintýraskóla félagsins á sunnudögum. Múlaþing tekur við góðu búi á skíðasvæðinu og hlakkar til áframhaldandi samstarfs.

SS

Skíðavetur í vændum
Getum við bætt efni þessarar síðu?