Frábær þátttaka var úr Múlaþingi á hinum þrælskemmtilegu Andrésar andar leikum í Hlíðarfjalli 19. - 23. apríl 2023 en Skíðafélagið í Stafdal átti 42 keppendur í öllum flokkum sem hægt er að keppa í á leikunum, alpagreinum, stjörnuflokki, skíðagöngu og brettum. Komu keppendurnir frá öllum byggðakjörnum Múlaþings utan Djúpavogs.
Andrésar andar leikarnir eru sannkölluð skíðaveisla frá morgni til kvölds sem byrjar með skrúðgöngu á miðvikudagskvöldi. Fánaberar SKÍS í skrúðgöngunni þetta árið voru þau Eyvindur, Stefanía og Svandís sem eru jafnframt elstu keppendur félagsins en þau voru á sínum síðustu Andrésar andar leikum sem keppendur.
Iðkendur frá SKÍS náðu í nokkur verðlaun en þar má helst nefna að Eyvindur Warén varð Andrésarmeistari í svigi, en hann hefur átt gríðarlega góðan skíðavetur og varð meðal annars tvöfaldur Austurlandsmeistari. Til viðbótar voru unnir ansi margir persónulegir sigrar sem oft eru ekki síður mikilvægir en peningar og bikarar.
Var gleðin við völd hjá bæði keppendum og foreldrum en hópurinn frá SKÍS er þéttur og góður og þar hjálpast öll að við að keppendum gangi sem best og að öll skemmti sér eins vel og hægt er. Er öllum verðlaunahöfum og öllum iðkendum SKÍS og aðstandendum óskað innilega til hamingju með frábæran árangur.