Sjávarútvegsskóla unga fólksins á Austurlandi er nú lokið. Kennt var samtals í 5 vikur eða frá 6. júní til 7. júlí. Skólinn var kenndur á Vopnafirði, Fáskrúðsfirði, Eskifirði, Neskaupsstað og á Seyðisfirði í eina viku á hverjum stað. Nemendum frá Egilsstöðum var ekið til Seyðisfjarðar. Samtals voru nemendur 42 sem höfðu lokið 8. bekk í grunnskóla.
Verkefnið var unnið í samstarfi vinnuskóla Fjarðabyggðar, vinnuskóla Múlaþings, vinnuskóla Vopnafjarðar, Sjávarútvegsmiðstöðvar Háskólans á Akureyri, fyrirtækja í sjávarútvegi og tengdum greinum. Kennarar voru sjávarútvegsfræðingurinn Magnús Víðisson og sjávarútvegsfræðineminn Katla Snorradóttir.
Námið var í formi fyrirlestra, heimsókna í, fiskiskip, fyrirtæki og leikja og verklegra æfing s.s. skynmats á fiski og tilraunum. Farið var í heimsóknir í fiskvinnslu Brims, til björgunarsveita, Loðnuvinnslunnar, Hampiðjunnar á Neskaupsstað, Síldarvinnslunnar, Egersunds, Eskju og Laxa fiskeldis.
Sjávarútvegsskólinn hóf starfsemi sína árið 2013 og var þá rekinn af Síldarvinnslunni í Neskaupstað. Fleiri sjávarútvegsfyrirtæki á Austfjörðum sóttust eftir því að taka þátt í verkefninu og árið 2015 var svo samið við Sjávarútvegsmiðstöð Háskólans á Akureyri um að taka við umsjón skólans. Á fyrsta rekstrarári skólans voru nemendur rúmlega 20 en 288 ungmenni sóttu skólann sumarið 2022.