Húlladúllan er á leiðinni í Múlaþing og ætlar að bjóða upp á tvenns konar námskeið.
Hún mun annars vegar bjóða upp á sirkusævintýri fyrir 6-9 ára gömul börn í íþróttahúsinu á Egilsstöðum 11. – 15. júlí. Hins vegar ætlar hún að bjóða upp á húlluhringjagerð í íþróttahúsinu á Egilsstöðum 12. Júlí, Neistahúsinu á Djúpavogi þann 16. Júlí og Ferjuhúsinu á Seyðisfirði 17. júlí.
Sirkusævintýrið er vikulangt námskeið og munu nemendur kynnast töfrum sirkuslistanna og spreyta sig á fjölbreyttum sirkusáhöldum og sirkusfimleikum. Í lok námskeiðsins verður fjölskyldu og vinum boðið til sannkallaðrar sirkusveislu þar sem þátttakendur leika listir sínar og bjóða svo gestum að spreyta sig!
Fyrir þá sem vilja kynna sér námskeiðið er hægt að lesa allt um það á Facebook síðu viðburðarins. Þar má einnig finna tengil til að skrá þátttakendur.
Húlluhringjagerðin er opin öllum aldri og eru öll velkomin að taka þátt. Um húllahringjagerðina segir hún sjálf:
,,Ég hvet bæði börn og fullorðin til þess að tjékka á húllahringjagerðarsmiðjunum. Þær eru einstakt tækifæri fyrir fullorðin til að eignast alvöru húllahring. Fullorðið fólk nefnilega þarf stærri húllahringi heldur en þá sem eru alla jöfnu í boði og ég bý til passlegan húllahring sérstaklega fyrir hvern og einn sem skráir sig. Fyrir utan það hvað það er gaman að húlla þá er húllið frábær líkamsrækt sem bæði styrkir kviðvöðva og bak, eykur þol og brennir. Og það er sannkölluð gæðastund fyrir fjölskylduna að mæta saman, föndra sinn húllahring og læra að húlla!“
Á Facebook síðum viðburðanna er hægt að lesa allt um húlluhringjasmiðjuna á Djúpavogi, Egilsstöðum og Seyðisfirði. Þau sem hafa áhuga á að hanna sinn eigin húllahring eru hvött til að skrá sig í gegnum tengil sem finna má á Facebook-síðunum.
Húlladúllan er sjálfstætt starfandi sirkuslistakona að nafni Unnur Máney og er búsett á Ólafsfirði. Spurð út í ástæðu þess að hún er að ferðast um landið með námskeið fyrir fólk á öllum aldri sagði hún:
,,Ég er flökkukind og hef virkilega gaman af því að ferðast um Ísland. Það er því alger draumur í dós fyrir mig að ferðast um landið á sumrin með bílinn fullan af sirkusdóti, koma fram á viðburðum og kenna námskeið. Svo ólst ég sjálf upp úti á landi og finnst það einfaldlega virkilega verðugt verkefni að koma með sirkusnámskeiðin út á land þar sem börn og fullorðin hafa alla jafna ekki tækifæri til þess að spreyta sig á sirkuslistum. Ég man það vel hvað mig langaði þegar ég var lítil að prófa allskonar sem þá var ekki í boði i Borgarnesi.“
Hún er lærður sirkuskennari og hefur kennt og sýnt með Sirkus Íslands og breska sirkusnum Let’s Circus auk þess að koma fram á ýmsum viðburðum á alþjóðlegri grundu.
,,Sirkusævintýrið mitt hófst á ferðalagi um Mexíkó árið 2009, þegar ég lærði að djöggla og gerðist götulistakona. Á ferðalagi mínu um Mexíkó sótti ég svo ótal sirkusmót og dvaldi í allskonar listakommúnum þar sem ég hélt ég áfram að uppgötva sirkuslistirnar. Þegar ég kom heim til Íslands nokkrum árum síðar þá gekk ég til liðs við Sirkus Íslands og vann fyrir hann í nokkur ár. Frá árinu 2016 hef ég svo unnið sjálfstætt hér heima undir nafninu Húlladúllan og svo í Bretlandi fyrir sirkusinn Let's Circus. Það sem heillar mig við sirkusinn er að sirkuslistirnar eru afskaplega fjölbreyttar og þar geta öll fundið eitthvað áhugavert við sitt hæfi. Það er bæði hægt að stunda sirkuslistir sem tómstundagaman eða líkamsrækt og á afreksstigi. Sirkuslistirnar eru einnig frábært verkfæri til þess að þroska og styrkja samskipti og samvinnu og til þess að styrkja mig enn frekar í því að nýta þær á þá leið lærði ég til ,,social circus" kennara. Það nám er skipulagt á vegum Caravan, sem eru alþjóðleg samtök sirkusskóla og var námið styrkt af Evrópubandalaginu.“
Hér er mikil fagmanneskja á ferð sem brennur fyrir sirkusnum og því að miðla þekkingu sinni og eru íbúar eindregið hvattir til þess að nýta sér námskeiðið sem og listasmiðjuna.
Heimsókn Húlladúllunnar er styrkt af Menningarsjóði Múlaþings og unnin í samstarfi við ungmennafélagið Þristinn.