Múlaþing og EFLA hf. hafa skrifað undir samning um gerð Aðalskipulags Múlaþings 2025-2045. Samninginn undirrituðu þeir Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings, og Einar Andresson, fyrir hönd EFLU, í sól og sumarblíðu á Egilsstöðum í dag þann 1. júní.
Um er að ræða nýtt aðalskipulag fyrir sveitarfélagið sem stofnað var í kjölfar sameiningar fjögurra sveitarfélaga á Austurlandi árið 2020. Í gildi eru aðalskipulagsáætlanir fjögurra sveitarfélaga með ólíkan gildistíma auk þess sem á þeim hafa verið gerðar fjölmargar breytingar. Markmið fyrirhugaðrar vinnu verður að horfa til framtíðar með mótun heildstæðrar stefnumörkunar fyrir nýtt sveitarfélag.
Skipulagið tekur til alls lands innan sveitarfélagsmarka en stærð þess er um 10.671 km² sem eru rúm 10% af heildar flatarmáli Íslands.
Stefnumörkun í aðalskipulaginu skal meðal annars taka til íbúaþróunar, afmörkunar svæða fyrir íbúðabyggð, opinbera þjónustu, atvinnustarfsemi, auðlindastefnu og útivist. Enn fremur samgangna, orkuöflunar, að- og fráveitna, landnýtingar, náttúruvár, sjálfbærni, landskipulagsstefnu, loftslags, landslags, lýðheilsu, verndar-, vatna- og strandsvæða og fleira. Aðalskipulagið skal nýtast sem virkt stjórntæki við ákvarðanir og áætlanagerð sveitarfélagsins um nýtingu og hverskonar ráðstöfun lands. Stefnt er á að nýtt aðalskipulag geti tekið gildi í árslok 2025.