Farskóli FÍSOS, félags íslenskra safna og safnmanna, fer fram á Hótel Hallormsstað dagana 21.-23. september. Farskólinn er árleg fagráðstefna safnafólks á Íslandi og í ár er yfirskrift hans Söfn á tímamótum.
Farskólinn hefur verið haldinn á hverju ári síðan 1989 og er mikilvægur vettvangur endurmenntunar og samstarfs meðal íslenskra safna. Á hverju hausti hittist safnafólk, ber saman bækur sínar, skoðar hvað er verið að gera í safnamálum víða um land og styrkir tengslanet sitt. Farskólinn hefur verið haldinn víða um land í gegnum tíðina og er jafnan vel sóttur en um 120 einstaklingar sem starfa á fjölbreyttum söfnum landsins leggja leið sína á Hallormsstað í næstu viku. Að þessu sinni eru það fulltrúar Minjasafns Austurlands á Egilsstöðum, Tækniminjasafns Austurlands á Seyðisfirði og Safnastofnunar Fjarðabyggðar sem hafa haft veg og vanda af skipulagningu ráðstefnunnar.
Á Farskólanum er boðið upp á áhugaverða fyrirlestra og spennandi málstofur auk þess sem söfn og sýningar á svæðinu verða heimsótt. Meðal umfjöllunarefna eru ný safnaskilgreining, skráning ljósmynda, grisjunaráætlanir, safnfræðsla, varðveisla báta, umhverfismál, jafnrétti, tengsl safna og ferðaþjónustunnar og fleira. Á Farskólanum fer einnig fram aðalfundur Félags safna og safnmanna, úthlutun styrkja Safnaráðs til verkefna safna og síðast en ekki síst árshátíð safnafólks.