Fara í efni

Roðagylling í Múlaþingi

06.12.2022 Fréttir

Múlaþing roðagyllir í tilefni 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi. 

Fjölmargar stofnanir hérlendis og erlendis hafa verið lýstar upp með roðagylltum lit í tilefni af 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi. Átakið hófst á alþjóðlegum baráttudegi gegn ofbeldi gagnvart konum 25. nóvember og lýkur á mannréttindadegi Sameinuðu þjóðanna 10. desember næstkomandi. Roðagyllti liturinn er táknrænn fyrir von og bjarta framtíð kvenna og stúlkna án ofbeldis.

Múlaþing hefur tekið þátt í verkefninu undanfarin ár í samvinnu við Soroptimistaklúbb Austurlands og vekur athygli á átakinu með því að lýsa upp nokkrar byggingar í sveitarfélaginu. Auk bæjarskrifstofunnar á Lyngási er Sláturhúsið og Safnahúsið á Egilsstöðum roðagylltar. Einnig hafa kirkjurnar á Egilsstöðum og á Seyðisfirði verið roðagylltar.

Um allan heim sameinast hin ýmsu samtök í því að vekja athygli á kynbundnu ofbeldi með ýmsum hætti en roðagyllti liturinn er einkenni átaksins, en hann á að tákna bjartari framtíð. 

Markmið 16 daga átaksins að þessu sinni er að beina athyglinni að forvörnum og fræðslu og hafa Soroptimistar útbúið fræðsluefni um hinar ýmsu myndir ofbelds sem flokka má í sex flokka; andlegt ofbeldi, líkamlegt ofbeldi, kynferðislegt ofbeldi, fjárhagslegt ofbeldi, stafrænt ofbeldi og eltihrellir. Ekki er alltaf auðvelt að átta sig á því að um ofbeldi sé að ræða í samböndum fólks en það getur átt sér stað óháð kyni, aldri og kynhneigð. 

Íslenskir Soroptimistar, sem eru nú um 600 í 19 klúbbum, hvetja alla til að kynna sér málefnið, fræðast og leggja sitt af mörkum til að stöðva ofbeldi. Soroptimistar munu þessa 16 daga vekja athygli meðal annars með því að klæðast roðagylltum fatnaði, selja ýmsan varning og birta greinar og fræðsluefni. Roðagyllti liturinn verður einnig áberandi á byggingum víðs vegar um landið og einnig í sendiráðum Íslands víða um heim.           

Hægt er að skoða myndir og myndskeiði á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #roðagyllumheiminn og #orangetheworld                                                  

          

Roðagylling í Múlaþingi
Getum við bætt efni þessarar síðu?