Þann 23. maí 2023, samþykkti byggðaráð Múlaþings reglur um gististaði innan sveitarfélagsins. Reglur þessar taka annars vegar mið af skyldum sveitarfélagsins í málaflokknum miðað við fyrirmæli í lögum nr. 85/2007 og reglugerð nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Hins vegar taka reglurnar mið af þeim valdheimildum sem sveitarfélagið hefur til stefnumótunar innan sveitarfélagsins, samanber skipulagslög nr. 123/2010 og öðrum lögum og reglugerðum sem sveitarfélagið varðar. Reglur Múlaþings um gististaði eru dæmi um það síðara, en þær má finna hér.
Sótt er um leyfi til reksturs gististaða rafrænt hjá Sýslumannsembættum landsins eða hér. Þar eru jafnframt upplýsingar um skilyrði fyrir leyfisveitingu. Mikilvægt er að umsækjendur um rekstur gististaða hugi að undirbúningi slíkrar starfsemi með góðum fyrirvara og hafi öll nauðsynleg gögn tilbúin svo flýta megi gerð umsagna og afgreiðslu leyfisveitinga.
Hver sá sem vill hefja gistirekstur í Múlaþingi þarf að gera það í samræmi við gildandi lög og reglur. Í samræmi við 3. grein reglugerðar númer 1277/2016 eru fjórir mismunandi flokkar gististaða. Þessir flokkar eru:
-Gisting í flokki I – Heimagisting. Ekki þarf að sækja um rekstrarleyfi til heimagistingar en hana þarf að skrá hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu.
-Gisting í flokkum II-IV - Aðrir gististaðir. Sækja þarf um rekstrarleyfi til sýslumanns og leggja fram viðeigandi gögn en jákvæð umsögn sveitarfélagsins er háð því að fyrirhugaður rekstur sé í samræmi við aðalskipulag sveitarfélagsins og deiliskipulag viðkomandi lóðar, fasteignin uppfylli skilmála byggingarreglugerðar, fasteignin sé skilmerkilega merkt starfseminni utan húss, í samræmi við byggingarreglugerð, fyrir liggi jákvæð umsögn frá Heilbrigðiseftirliti Austurlands og að fyrir liggi jákvæð umsögn frá Brunavörnum Austurlands.
Í reglum Múlaþings um gististaði kemur fram að sveitarfélagið getur veitt jákvæða umsögn fyrir gistingu á íbúðarsvæðum, samkvæmt afmörkun þeirra í gildandi aðalskipulagi, fyrir gistirekstur í flokki II, en ekki flokki III – IV, ef eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt: Gisting er á einkaheimili gistisöluaðila og hann skal hafa þar aðsetur, hámarksfjöldi leigðra herbergja er fimm, hámarksfjöldi gesta eru tíu einstaklingar, næg bílastæði þurfa að vera til staðar samkvæmt skilgreiningu í 3. grein reglnanna og að á samþykktum teikningum komi skilmerkilega fram hvaða hluti húsnæðis tilheyrir gistirekstrinum en eingöngu er heimilt að selja gistingu í íbúðarherbergjum.
Í reglunum er einnig fjallað um skilyrði fyrir jákvæðri umsögn vegna gistingar á verslunar-, þjónustu- og miðsvæðum, á frístundabyggðasvæðum og á landbúnaðarsvæðum og öðrum svæðum.
Múlaþing leggur á allar eignir sem nýttar eru til gististarfsemi fasteignagjöld í C-lið 3. málsgrein laga númer 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga í réttu hlutfalli við það hlutfall hússins sem nýtt er til sölu gistingar.
Heimastjórnir Múlaþings veita umsagnir til sýslumanns samkvæmt framangreindu, þegar fyrir liggja umsagnir byggingarfulltrúa, skipulagsfulltrúa, heilbrigðiseftirlits og slökkviliðs. Heimastjórnirnar funda einu sinni í mánuði, að jafnaði fyrsta fimmtudag í mánuði.
Hér má finna Reglur Múlaþings um gististaði innan sveitarfélagsins