Leikhópurinn Lotta leggur land undir fót í sumar með sýninguna Pínulitla Mjallhvít. Sýningin er 30 mínútur að lengd og er unnin upp úr klukkutíma sýningunni Mjallhvíti sem hópurinn setti upp fyrir nokkrum árum.
Ástæða þess að sýningin er 30 mínútur nú í ár í stað 60 er covid faraldurinn en sama ástæða er að baki þess að hópurinn er skipaður fjórum leikurum í stað sex. Þau stefna þó að því að vera með fullskipað lið að ári og sýningu í fullri lengd.
Sigsteinn Sigurbergsson leikari segir leikritið aðlagað að styttri sýningartíma en sé þó enn heilsteypt saga. Hann segir það vera forréttindi að fá að ferðast um landið með Leikhópnum Lottu og skoða alla þá yndislegu staði sem hópurinn sýnir á.
,,Aðdáendur hópsins á landsbyggðinni hlakka mikið til að fá okkur og sýna það svo sannarlega. Það er virkilega gaman þegar svona vel er tekið á móti okkur.“
Það er alltaf skemmtilegt þegar leikhópar heimsækja landsbyggðina og sérstaða Lottunnar er að sýningarnar eru haldnar utandyra svo lengi sem veður leyfir.
Leikararnir sem ferðast með hópnum um landið í sumar eru Sigsteinn, Stefán Benedikt, Andrea Ösp og Þórunn Lárusdóttir.
Sýningarnar verða í hverjum byggðakjarna sveitafélagsins á eftirfarandi tímum:
- Djúpivogur, þriðjudaginn 19. júlí kl. 17:30 á fótboltavellinum.
- Seyðisfjörður, miðvikudaginn 20. júlí kl. 17:30 á túninu við Bláu Kirkjuna.
- Egilsstaðir, föstudaginn 22. júlí kl. 15:00 og 17:30 í Tjarnargarði.
- Borgarfjörður eystri, laugardaginn 23. júlí kl. 11:00 á fótboltavellinum.
Sveitarfélagið Múlaþing mun bjóða íbúum sem og gestum sveitafélagsins á sýningarnar þeim að kostnaðarlausu.