Í ár eru liðin 75 ár frá því að Sláturhúsið á Egilsstöðum var fyrst tekið í gagnið sem sláturhús. Hlutverk hússins hefur þó breyst í áranna rás og árið 2006 eignast Fljótsdalshérað húsið og saga þess sem menningarmiðstöð hefst. Síðla árs 2020 var síðan hafist handa við endurbætur, bæði að utan og innan. Arkitektinn Anna María Þórhallsdóttir ásamt Sniddu arkitektastofu eiga heiðurinn af hönnun á endurbótum og breytingum á Sláturhúsinu. Verkið hefur verið unnið með einstakri natni og virðingu fyrir viðfangsefninu, tímalaus arkitektúr sem kallast á við fyrri sögu hússins á fallegan máta.
Dyr Sláturhússins verða opnar fyrir gestum og gangandi þann 22. september klukkan 17. Menningar- og viðskiptaráðherra Lilja D. Alfreðsdóttir flytur ávarp og opnar húsið formlega. Nemendur úr Tónlistarskóla Egilsstaða og Fellabæjar koma fram og jazzdúett Edgars Rugajs og Birgis Theodórssonar flytur tónlist.