Verið velkomin á opnun laugardaginn 3. september kl. 14:00 á myndlistarsýningunni Hnikun í Sláturhúsinu Menningarmiðstöð með verkum eftir Ingunni Fjólu Ingþórsdóttur og Þórdísi Jóhannsdóttur. Hnikun er fyrsta sýningin sem opnar í Sláturhúsinu eftir gagngerar endurbætur.
Á sýningunni Hnikun birtast okkur verk sem unnin eru út frá sögu Sláturhússins. Textaverk, ljósmyndir, skúlptúrar, textílverk og vídeó hverfast um formgerð sem liðast um rýmið. Verkin kallast á við þá vinnslulínu sem áður fyllti salinn og í gegnum þau fáum við enduróm þess sem var. Á sýningunni tvinnast saga og umgjörð slátrunar saman við hugmyndir um hvernig við skynjum, hvernig við minnumst þess liðna og viðleitni okkar til að skapa kerfi úr umhverfi okkar. Hnikun markar enduropnun Sláturhússins eftir umfangsmiklar umbætur til að styðja við hlutverk hússins sem menningarmiðstöð. Titill sýningarinnar vísar í hvernig eitt hnikar fyrir öðru – umbreytingu í samfélagi og starfsemi.