19.11.2022
Fréttir
Seyðisfjörður
Meðfylgjandi er bloggpistill Veðurstofu frá 21. nóvember 2022 :
Á bloggsíðu Veðurstofu frá í dag kemur fram að tæplega 40 mm skiluðu sér í úrkomumæla á Seyðisfirði síðasta sólarhring. Vindátt var austan og suðsuðaustan og meiri úrkoma kom í mælinn í Neðri-Botnum en niðri í bæ og tæpir 30 mm mældust í Vestdal. Næsta sólarhring gerir spáin ráð fyrir minni úrkomu eða um 10-15 mm. Spáð er suðaustan átt fram eftir degi en snýst í austanátt þegar líður á daginn. Búist er við að hiti fari niður fyrir frostmark í fjallahæð á morgun og frostmarkshæð verður komin niður í 50-100 metra annað kvöld. Nokkurra millimetra hreyfing sést á radarmynd síðasta sólarhrings en ekki er að sjá hreyfingu á mynd milli klukkan 8:55-9:27. Hreyfingin er í Búðarhrygg og kringum stóra skriðusárið en einnig í Þófanum og Þófabrún.
Vatnshæð í borholum er ennþá fremur há en hefur lækkað eða staðið í stað frá því hætti að rigna klukkan 06:00 í morgun. Ekki þykir ástæða til bregðast við með rýmingu við þessar aðstæður en vinna í lækjum og skriðufarvegum eða umferð fólks við farvegi eða á göngustígum meðfram skriðufarvegum er ekki æskileg. Þetta á sérstaklega við um Búðará þar sem hryggurinn innan við upptök skriðunnar frá 2020 hefur hreyfst og yfirborðsjarðlög kunna að vera óstöðug og smáspýjur gætu fallið.
Hægt er að nálgast daglegar upplýsingar um aðstæður á Seyðisfirði á heimasíðu Veðurstofu Íslands.
Mynd: Veðurstofa Íslands