Fara í efni

Múlaþing fær styrk úr Sprotasjóði

03.06.2024 Fréttir

Sprotasjóður leik- grunn- og framhaldsskóla hefur úthlutað 59,8 m.kr. til 32 skólaþróunarverkefna fyrir skólaárið 2024–2025. Múlaþing sótti um styrk fyrir verkefnið ,,RÚN – reynsla, útinám og náttúra“ og fékk tvær milljónum úthlutað fyrir verkefnið.

RÚN er tveggja ára þróunarverkefni til að efla útinám í grunnskólum Múlaþings. Verkefnið er þróað og unnið í samstarfi við Náttúruskólann. Tveir nemendaárgangar í grunnskólum Múlaþings fara í vettvangsferð í Hallormsstað á hvoru ári þar sem þeir takast á við áskoranir, sem reyna á samvinnu, þrautsegju og áræðni. Markmiðin eru aukin fjölbreyttni í kennslu, sjálfstraust nemenda styrkist ásamt virðingu þeirra fyrir umhverfi sínu og náttúru. Samhliða verður starfræktur samstarfshópur kennara úr öllum skólum sveitarfélagsins í umsjón verkefnisstjóra til að efla útikennslu.

Með verkefninu verður hægt að efla samstarf milli skóla í kjörnum sveitarfélagsins. Þá verður hægt að gefa nemendum kost á að kynnast stórbrotnu umhverfi Hallormsstaðaskógar, bjóða upp á fjölbreyttara skólastarf þar sem allir nemendur geta notið sín og stutt við hvorn annan við ólíkar áskoranir og þannig skapa tækifæri fyrir nemendur til að verða sjálfstæðari og að þeir læri að vinna saman í hóp. Þá er markmið verkefnisins einnig að auka virðingu nemenda fyrir umhverfi sínu og náttúrunni og gefa þeim kost á að kynnast fornum vinnubrögðum. Þá á það að auka hæfni kennara til að flétta útinám í daglegt skólastarf til að koma til móts við mismunandi þarfir, getu, þroska og áhuga nemenda.

Verkefninu er ætlað að efla þrautsegju, náttúrufræði og trú á eigin vinnubrögðum hjá nemendum sveitarfélagsins. Þá á það einnig að byggja undir faglegt sjálfstraust kennara þegar kemur að útinámi.

Áherslur Sprotasjóðs árið 2024 voru annars vegar farsæld barna og ungmenna, með áherslu á umburðarlyndi, fjölbreytileika og inngildingu nemenda og hinsvegar teymiskennsla og samstarf. Það er því greinilegt að þetta metnaðarfulla þróunarverkfni Múlaþings fellur vel að þessum áherslum og það verður spennandi að sjá hvernig útinámið þróast á komandi misserum.

Styrkþegar Sprotasjóðs 2024
Mynd: Stjórnarráð Íslands
Styrkþegar Sprotasjóðs 2024
Mynd: Stjórnarráð Íslands
Getum við bætt efni þessarar síðu?