Listahátíð í Reykjavík fer fram dagana 1.- 16. júní 2024. Á dagskránni í ár er frábært úrval listviðburða af ýmsum toga og víða um land en í Múlaþingi fara fram tveir viðburðir.
Annars vegar opnar sýningin RASK í Sláturhúsinu þann 6. júní. Á sýningunni RASK mætast þær Agnieszka Sosnowska ljósmyndari og Ingunn Snædal ljóðskáld. Samspil ljósmynda og ljóða birtist sem vitnisburður um þróun lands og eyðingu. Þessar ólíku listakonur bregðast á næman hátt við list hvor annarrar og því sem þær skynja og upplifa í röskuðu og rofnu umhverfi.
Hinsvegar blæs KIOSK 108 á Seyðisfirði til þriggja daga hátíðar í samstarfi við Listahátíð þar sem skipstjórinn Monika Fryčová býður upp á óvænta og töfrandi viðburði. Á dagskránni verða ómissandi atriði þar sem saman fléttast framsækin listsköpun, psychedelia, rokk og ról, þjóðlagatónlist, djass, pönk og metal svo úr verður margbreytilegt og ástríðufullt neðanjarðarpartý.
Þetta eru þó ekki einu viðburðirnir á Austurlandi en í Fjarðabyggð fer fram viðburðurinn Sæskrímslin þann 15. júní í Neskaupstað. Sæskrímslin er nýtt íslenskt götuleikhúsverk fyrir alla fjölskylduna en þar birtast ótrúlegar kynjaverur úr smiðju Pilkinton Props og sirkuslistahópnum Hringleik.
Listahátíð er vettvangur fyrir listsköpun í hæsta gæðaflokki frá öllum heimshornum en á líka í kröftugu og lifandi sambandi við almenning í landinu og leitast við að tendra áhuga sem flestra til að taka þátt og njóta lista á eigin forsendum. Hátíðin fagnar fjölbreytileika mannlífsins og setur aðgengi og virðingu fyrir umhverfinu í forgang. Við verkefnaval hefur hátíðin faglegan metnað, kjark, lífsgleði og stórhug að leiðarljósi.
Það verður því nóg um að vera á Listahátíð í Reykjavík hér eystra og áhugasöm hvött til að sækja viðburðina heim.