Eru almenningssamgöngur í sveitarfélaginu í skoðun? Hver er staða háskólaseturs í Múlaþingi? Hvernig ætlar sveitarstjórn að beita sér fyrir því að Axarvegi og Fjarðarheiðargöngum verði flýtt á samgönguáætlun? Voru meðal spurninga sem sveitarstjórn Múlaþings var beðin um að svara á sameiginlegum fundi með ungmennaráði sveitarfélagsins í nýliðinni viku.
Mikilvægt að skapa tenginguna
Fundurinn fór fram í Herðubreið á Seyðisfirði og sköpuðust líflegar umræður eftir kraftmiklar kynningar ungmennaráðs á fjölmörgum málefnum sem á því brennur.
“Þetta er ótrúlega mikilvægur hluti af starfi okkar í ungmennaráði,” segir Rebecca Lísbet Sharam, formaður ungmennaráðs Múlaþings. “Við erum svo sem í samtali og að vinna mál sem sveitarstjórn sér allan veturinn en þegar við hittumst og ræðum sérstaklega mál sem okkur finnast mikilvæg þá skapast bæði öðruvísi tenging milli okkar og sveitarstjórnarfólksins auk þess sem við þjálfumst í að flytja mál svona formlega.”
Þakka fyrir framkvæmd á málefnum ungmennaráðsins
“Það er líka mikilvægt fyrir okkur að fá að þakka fyrir, í persónu, hversu vel hefur gengið að koma í framkvæmd þeim málum sem við höfum vakið athygli fastanefnda og sveitarstjórnar á,” segir Rebecca. “Nú er til að mynda búið að laga aðgengi ofan í barnalaugina í Sundlaugina á Egilsstöðum og festa í sessi samstarfssamning við Samtökin 78 um hinsegin fræðslu í alla grunnskóla í Múlaþingi en það var gert í beinu framhaldi af því að við gerðum grein fyrir áhyggjum okkar af stöðu hinsegin barna í sveitarfélaginu í ljósi þeirrar afturfarar sem hefur orðið í samfélagsumræðunni þegar kemur að málefnum hinseginsamfélagsins."
Ungmennaráðið hlaut hæsta styrk
Sameiginlegi fundurinn með sveitarstjórn markaði lokin á starfsvetri ungmennaráðsins og eru ungmennin því komin í sumarleyfi frá störfum ráðsins. Það er þó ljóst að það er nóg vinna fram undan þegar sumri líkur en ráðið hlaut á dögunum hæsta styrk úr samfélagssjóði Alcoa fyrir verkefni sem ungmennaráð Múlaþings og Fjarðabyggðar vinna að í sameiningu.
“Við erum mjög stolt af þessu verkefni en það snýst í grófum dráttum um að ungmennaráðin í Múlaþingi og Fjarðabyggð færa öllum túrandi ungmennum sveitarfélaganna í 9. og 10. bekk fjölnota túrvörur að gjöf. Við notum styrkinn, sem er ein og hálf milljón króna, til þess að kaupa vörurnar en skólahjúkrunarfræðingar sjá svo um að koma þessu í réttar hendur í hverjum skóla,” segir Rebecca að lokum.
Rebecca Lísbet Sharam, formaður ungmennaráðs Múlaþings.