Kröfur fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins um þjóðlendur á svæði 11, Austfjörðum, bárust óbyggðanefnd 25. janúar 2022, sbr. 10. gr. þjóðlendulaga, nr. 58/1998. Í framhaldinu kallaði óbyggðanefnd eftir kröfum þeirra sem kynnu að eiga öndverðra hagsmuna að gæta. Kröfulýsingarfrestur var til 20. júní 2022 eftir að hafa verið framlengdur tvívegis. Innan frestsins bárust 32 kröfulýsingar, sumar vegna fleiri en einnar jarðar eða svæðis, og athugasemdir vegna eins svæðis.
Allar kröfulýsingar, ásamt kortum með kröfulínum málsaðila má finna á vefsíðu óbyggðanefndar. Kynningargögnin er einnig hægt að nálgast á skrifstofum Múlaþings. Önnur fylgiskjöl en hér eru birt fást hjá skrifstofu óbyggðanefndar.
Kynning á heildarkröfum skv. 12. gr. þjóðlendulaga stendur yfir 15. nóvember – 15. desember 2022. Frestur til athugasemda er til 22. desember 2022.
Rannsókn óbyggðanefndar á málunum stendur yfir en hún felur m.a. í sér ítarlega og kerfisbundna gagnaöflun í samvinnu við sérfræðinga á Þjóðskjalasafni Íslands. Einnig verður farið í vettvangsferðir um ágreiningssvæðin auk þess sem haldin verður svonefnd aðalmeðferð þar sem aðilar og vitni gefa skýrslur og málin eru flutt munnlega. Leiði rannsókn nefndarinnar í ljós að einhver kunni að telja til eignarréttinda án þess að hafa lýst kröfu verður viðkomandi gefinn kostur á að gerast aðili máls, sbr. 3. mgr. 13. gr. þjóðlendulaga. Að lokinni gagnaöflun og rannsókn á eignarréttarlegri stöðu ágreiningssvæðanna úrskurðar óbyggðanefnd síðan um fram komnar kröfur.