Fara í efni

Húsnæðisáætlun samþykkt og niðurstöður húsnæðiskönnunar

03.03.2023 Fréttir

Umhverfis- og framkvæmdaráð, í umboði sveitarstjórnar, samþykkti á fundi sínum 13. febrúar sl. endurskoðaða húsnæðisáætlun Múlaþings. Áætlunin er unnin í samræmi við reglugerð um húsnæðisáætlanir sveitarfélaga frá 2018.

Hlutverk húsnæðisáætlana er að draga fram mynd af stöðu húsnæðismála í sveitarfélögum, greina framboð og eftirspurn og setja fram áætlun um hvernig sveitarfélagið ætlar að mæta húsnæðisþörf til lengri og skemmri tíma. Megin markmiðið er að stuðla að auknu húsnæðisöryggi.

Í áætluninni er farið yfir

  • mannfjöldaspá og lýsingu á atvinnuástandi eftir kjörnum sveitarfélagsins, áætlaða íbúðaþörf eftir búsetuformum og markmið sveitarfélagsins varðandi íbúðkaup ubyggingu.
  • Þá er gerð grein fyrir þjónustu og innviðum á borð við skóla og hjúkrunarrými.
  • Einnig er ljósi varpað á áætlanir um skipulag lóða og svæða til næstu ára og stöðu þeirra í skipulagsferlinu.
  • Að lokum eru markmið sveitarfélagsins í lóðamálum listuð auk íbúða í byggingu.

Húsnæðisáætlun Múlaþings.

Niðurstöður húsnæðiskönnunar

Húsnæðiskönnun var gerð í tengslum við endurskoðun húsnæðisáætlunarinnar og fékk Múlaþing Austurbrú til þess að vinna rafræna könnun sem var lögð fyrir í nóvember og desember 2022.

Niðurstöðurnar eru samandregnar niður á svæði sveitarfélagsins Múlaþings en í þeim kemur fram sú sameiginlega niðurstaða að svarendur vilja eiga eigið hús fremur en að vera á leigumarkaði og helst vilja svarendur einbýlishús. Óskastærð flestra er þriggja til fjögra svefnherbergja húsnæði og fæstir hafa áhuga á að byggja og kjósa hús sem nú þegar hefur verið byggt. Flestir þeirra sem sögðust hafa áhuga á að kaupa hafa ekki tekið ákvörðun um kaup.

Samantekt eftir svæðum gefur til kynna eftirfarandi túlkun niðurstaðna en tekið skal fram að fyrirvari er á slíkri túlkun þegar aðeins liggur fyrir söfnun í eitt gagnasett. Stefnt er að því að könnunin verði lögð fyrir reglulega og geta þá gefið upplýsingar um þróun húsnæðisþarfar yfir lengra tímabil.

Borgarfjörður

Meirihluti svarenda er á leigumarkaði en vilja eiga eigið húsnæði, helst einbýlishús. Einnig voru parhús og fjölbýli/blokk nefnt. Flestir vilja þriggja svefnherbergja húsnæði. Samkvæmt könnun vildi meirihluti svarenda kaupa hús sem nú þegar er á markaði eða kaupa hús sem er í eigu og byggingu hjá byggingarverktaka. Þegar spurt var hvort svarendur væru líklegir kaupendur voru um 60% sem höfðu áhuga en ekki tekið ákvörðun, 40% töldu það ólíklegt.

Djúpivogur

Meirihluti svarenda býr í eigin húsnæði og flestir vilja búa í einbýlishúsi, en einnig var hluti sem vildi búa í par- og raðhúsum. Flestir vilja þriggja og fjögra svefnherbergja húsnæði. Samkvæmt könnun vildi meirihluti svarenda kaupa húsnæði sem þegar væri á markaði. Meira en helmingur svarenda hafði áhuga á að kaupa hús eða íbúð af byggingarverktaka. Þegar spurt var hvort svarendur væru líklegir kaupendur voru um 70% sem höfðu áhuga en ekki tekið ákvörðun, 27% taldi það ólíklegt.

Egilsstaðir

Flestir svarendur búa í eigin húsnæði sem oftast er einbýli og vilja eiga eigið húsnæði. Flestir kjósa einbýlishús en einnig var hluti svarenda sem vildi búa í par- og raðhúsi, fjölbýli/blokk og fjölbýli/blokk fyrir 55 ára og eldri. Meirihluti sækist eftir þriggja og fjögra svefnherbergja húsnæði. Samkvæmt könnun vildi meirihluti svarenda kaupa húsnæði sem nú þegar væri á markaði. Meira en helmingur hafði áhuga á að kaupa hús/íbúð af byggingarverktaka. Þegar spurt var hvort svarendur væru líklegir kaupendur var helmingur sem höfðu áhuga en ekki tekið ákvörðun, 43% taldi það ólíklegt.

Seyðisfjörður

Flestir svarendur búa í eigin húsnæði sem oftast er einbýlishús og óska þess að búa í einbýlishúsi. Svarendur vilja flestir tveggja til þriggja svefnherbergja húsnæði. Samkvæmt könnun hafa svarendur áhuga á að kaupa hús sem er nú þegar á markaði. Þegar spurt var hvort svarendur væru líklegir kaupendur skiptust þeir jafnt á milli þess að hafa áhuga en ekki tekið ákvörðun og þeirra sem telja það ólíklegt.

Húsnæðisáætlun samþykkt og niðurstöður húsnæðiskönnunar
Getum við bætt efni þessarar síðu?