Þann 30. júní síðastliðinn voru teknar fyrstu skóflustungurnar að íbúðakjarna fyrir 55 ára og eldri á Seyðisfirði. Skóflustungurnar tóku þau Björn Ingimarsson sveitarstjóri Múlaþings, Gunnhildur Eldjárnsdóttir formaður félags eldri borgara á Seyðisfirði og Sigurður Garðarsson stjórnarformaður Hrafnhóls.
Hafist verður handa við jarðvegsframkvæmdir og sökklasmíði á Lækjarvegi á næstunni, en áætlað er að húseiningar íbúðakjarnans verði komnar til Seyðisfjarðar um miðjan október og að þá muni reising hússins hefjast. Húsið er byggt við bestu aðstæður innandyra í verksmiðju í Eistlandi. Frá því að einingarnar koma til landsins tekur um það bil 2 vikur að reisa húsin og áætlað er að hægt verði að flytja inn í þær þann 1. mars næstkomandi. Endanlegur lóðarfrágangur við húsið fer svo fram þegar komið verður fram á næsta sumar.
Samkomurými hússins verður útbúið með eldhúsaðstöðu til þess að hægt sé að útbúa og bera fram léttar veitingar. Sveitarfélagið hefur tekist á hendur rekstur samkomurýmisins samkvæmt samkomulagi við eiganda hússins.
Í íbúðakjarnanum eru tvær tveggja herbergja íbúðir, 54.4m2, fjórar þriggja herbergja íbúðir, 79,5m2 og tvær, fjögurra herbergja íbúðir, 94,1m2. Samkomurýmið er samtals tæpir 100fm að meðtöldu eldhúsi, salernum og þess háttar.
Íbúðirnar verða boðnar til leigu til einstaklinga, 55 ára og eldri. Það er Hrafnshóll ehf. sem byggir húsið fyrir húsnæðissjálfseignarstofnunina Brák hses. sem var nýverið sett á fót af HMS og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.