Í Múlaþingi er margt um að vera í sumar fyrir yngri íbúa sveitarfélagsins. Til að mynda ýmis námskeið ætluð börnum og ungmennum auk sérstakra viðburða og vinnusmiðja.
Sumarnámskeið Nýungar á Egilsstöðum er nýhafið. Námskeiðið er fyrir krakka frá 10-12 ára en Árni Pálsson leiðir það ásamt Reyni Hólm, Þórdísi Kristvinsdóttur og Ingu Lind Bjarnadóttur. Dagskráin í ár hljóðar upp á þrjár vikur af ævintýrum og til að mynda verður gengið á eina af perlum Fljótsdalshéraðs, hjólað í Dýragarðinn á Finnsstöðum, slökkvistöðin heimsótt og matur eldaður yfir opnum eldi. Þá er mikil áhersla lögð á sjálfsstyrkingu og hópefli í gegnum leiki og fjör.
Samskonar námskeið er í boði á Djúpavogi á vegum félagsmiðstöðvarinnar Zion undir stjórn Williams Óðins Lefever. Skráning er opin til 11. júní gegnum Sportabler en námskeiðið hefst 12. júní.
Því miður náðist ekki að manna sumarnámskeið á Seyðisfirði.
Fyrir börn á aldrinum 7-9 ára er í boði sumarfrístund á Djúpavogi, Egilsstöðum og Seyðisfirði bæði fyrri part sumars og í ágúst. Áhersla námskeiðsins er á sköpun, sjálfstæðan leik, hópefli, sjálfsbjargarviðleitni, náttúrutengingu, færni, fræðslu og fjör. Þar er stíf dagskrá alla daga og er sumrinu skipt upp í þemavikurnar tækni og vísindi, vatn og veður, listir og skoðun, þjóðsögur og ævintýri.
Skráningu í sumarfrístundina lauk 21. maí en þó eru enn laus pláss á Djúpavogi og Seyðisfirði. Katla Rún Magnúsdóttir tekur við skráningum á Djúpavogi í síma 866 2046. Dagný Erla Ómarsdóttir tekur við skráningum á Seyðisfirði á dagny.erla.omarsdottir@mulathing.is. Hægt er að skrá börn á biðlista á Egilsstöðum með því að senda tölvupóst á vigdis.oskarsdottir@mulathing.is.
Þá mun Leikhópurinn Lotta koma í heimsókn í Múlaþing dagana 22.-29. júlí með Gilitrutt. Sýningartíma má finna hér.
Listahátíð ungs fólks á Austurlandi, LungA, stendur fyrir listasmiðju fyrir börn á aldrinum 4-16 ára sem auglýstar verða á Lunga.is.
Þá eru íþróttafélög með ýmis námskeið á sínum vegum sem einnig má finna á Sportabler.