Þann 1. janúar 2023 tóku gildi ný lög hvað varðar sorphirðu á Íslandi. Þessi lög kveða á um ýmsar breytingar sem þurfa að verða á sorphirðu, sem verður um leið samræmd á landinu öllu. Sveitarfélögum er nú skylt að sækja fjóra flokka af sorpi heim að dyrum: lífrænan úrgang, pappír og pappa, plast og blandaðan úrgang. Lögin kveða einnig á um að sveitarfélög eigi að bjóða upp á grenndargáma fyrir textíl, málma og gler. Textíl verður áfram safnað af Rauða Krossinum en gámar fyrir málma og gler munu koma í grennd við gáma Rauða Krossins.
Breytingarnar fram undan
Íbúar Múlaþings eru vel kunnugir flokkun og er breytingin í sjálfu sér aðeins sú að nú þarf að flokka plast og pappa í sitt hvorn flokkinn og fara með málma og gler í grenndarstöðvar. Íbúar í dreifbýli mega einnig eiga von á að fá til sín ílát fyrir lífrænan úrgang þar sem lögin kveða skýrt á um að sveitarfélaginu ber skylda að sækja þann flokk að öllum heimilum.
Íbúar Múlaþings fá því fjórar tunnur undir þessa flokka. Lífræni úrgangurinn heldur sinni stærð, 120 lítra ílát, pappír og pappi, plast og blandaður úrgangur fá öll 240 lítra ílát, sem er sama stærð og hefur verið á flokkunartunnunni núverandi. Íbúar mega því eiga von á því að fá til sín nýja plasttunnu á tímabilinu 4. – 18. september.
Sorphirða mun ekki taka neinum breytingum á Borgarfirði að svo stöddu.
Kynning Gámafélagsins og Múlaþings
Haldnir voru íbúafundir 21. – 22. ágúst á Seyðisfirði, Egilsstöðum og Djúpavogi þar sem Íslenska Gámafélagið fór yfir þessar breytingar. Hér að neðan má nálgast upptöku af kynningu Íslenska Gámafélagsins.
Flokkunarleiðbeiningar
Flokkunarleiðbeiningar settar fram á myndum. Ef myndin er valin opnast skjal sem hægt er að prenta út. Ítarlegri flokkunarleiðbeiningar má nálgast á heimasíðu Íslenska Gámafélagsins.
Sorting instructions | Instrukcja sortowania