Skógardagurinn mikli verður haldinn í sextánda sinn þann 25. júní. Hann var haldinn fyrst árið 2005 en féll niður síðustu tvö sumur vegna covid.
Þrátt fyrir að formleg dagskrá fari fram á laugardaginn þá má þess geta að það verður upphitun á föstudeginum frá klukkan 18:00 – 20:00 í Mörkinni í Hallormsstað. Þar verður hægt að gæða sér á fiskisúpu og taka þátt í söng við gítarspil. Þá má einnig búast við óvæntum uppákomum á sviði.
Það eru allir velkomnir og fólk er jafnframt hvatt til að koma með skógarbollana. Fyrir þá sem ekki þekkja til þá er skógarbolli hver sá bolli sem einstaklingar telja henta til þess að neyta súpu úr. Slíkur bolli ætti að vera til á hverju heimili og er skref í græna átt enda sparast notkun á einnota ílátum.
Á laugardeginum verður svo fjölbreytt skemmtidagskrá frá klukkan 12:00 – 16:00. Skógarhöggskeppnin verður á sínum stað, þrautir og leikir fyrir börnin. Magni og Klói munu síðan skemmta ungum sem öldnum. Það ætti enginn að þurfa að fara svangur heim þar sem í boði verða ýmsar veitingar eins og til dæmis heilgrillað naut, grillað lambakjöt, ketilkaffi, pylsur, lummur og ormabrauð að hætti skógarmanna.
Bergrún Arna Þorsteinsdóttir aðstoðarskógarvörður segir undirbúning hafa farið seint af stað í ár þar sem skipuleggjendur þorðu ekki að fara af stað fyrr en þeir sáu fram á að covid myndi ekki setja strik í reikninginn. Því hefur undirbúningur staðið skemur yfir en venjulega, en þó er engu til sparað og mikil tilhlökkun að fagna Skógardeginum á ný. Bergrún bendir á að dagurinn er mikið sameiningartákn landbúnaðargeirans:
,,Það má segja að þessi dagur sé einsdæmi á landsvísu því allur landbúnaðargeirinn á Austurlandi tekur höndum saman og mótar þennan dag. Skógarbændur, sauðfjárbændur, nautgripabændur og Skógræktin standa saman að deginum með styrkjum frá fyrirtækjum og velunnurum dagsins.“
Dagskrá Skógardagsins mikla sem og söngtexta fyrir upphitunina á föstudeginum má finna á Facebook síðu viðburðarins.